Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:29:43 (75)

1999-10-05 18:29:43# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leiðrétta misskilning. Það er ekki verið að stöðva framkvæmdir við Kennaraháskóla Íslands. Þær hafa ekki hafist. Það er verið að undirbúa framkvæmdirnar og þeim undirbúningi verður haldið áfram. Haldin var samkeppni um teikningu á húsið. Það er búið að velja teikninguna og er síðan verið að vinna að verkinu.

[18:30]

Ljóst er að þótt að við frestum 70 millj. kr. fjárveitingu á næsta ári þá verður engin stöðvun á þeim framkvæmdum, þeim verður haldið áfram. Það er einnig heimild í fjárlagafrv. og fjármunir fyrir hendi. Í fjárlagafrv. er heimild til að selja hús til að fjármagna þessar framkvæmdir. Það er því ekki verið að stöðva framkvæmdir við Kennaraháskólann, þær hafa ekki hafist enn þá. Það er verið að undirbúa þær og þeim undirbúningi verður haldið áfram og síðan ráðist í framkvæmdirnar.

Varðandi Þjóðminjasafnið þá var ákveðið í vor eða snemma á þessu ári þegar ljóst var að lengri tíma tæki að flytja muni úr Þjóðminjasafnsbyggingunni í geymslurými í Kópavogi --- sem er mjög vel útbúið og í fyrsta sinn sem munir í Þjóðminjasafni eru geymdir með viðunandi hætti --- að taka lengri tíma í að endurbæta safnhúsið. Þá var ákveðið að fresta opnun safnsins til ársins 2001. Þar er ekki verið að stöðva neinar framkvæmdir en menn hafa lengri tími til að vinna að þeim framkvæmdum og fjárveitingar taka mið af því.

Varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna þá hækka fjárveitingar til hans að raungildi um 140 millj. kr. milli ára þannig að það er ekki hægt að segja annað en að við séum að rýmka hag lántakenda með auknum fjárveitingum.

Það sem hv. þm. sagði um Háskóla Íslands og fjárveitingar til hans heyrir raunar sögunni til því að í morgun var ritað undir samkomulag á milli menntmrn. og Háskóla Íslands og fjmrh. um fjárveitingar til háskólans. Nái þær hugmyndir sem í samningnum eru fram að ganga í meðförum Alþingis þá er gert ráð fyrir að fjárveitingar til háskólans hækki um 246 millj. að raungildi á milli áranna 1999 og 2000 og að þar með sé tekið á fjárhagsvanda háskólans með viðunandi hætti.