Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:32:04 (76)

1999-10-05 18:32:04# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:32]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði aldrei í ræðu minni að framkvæmdum hefði verið hætt við Kennaraháskólann, þær hefðu verið hafnar og þeim hefði verið hætt. Mér var ljóst að unnið var að undirbúningi og ég hafði bundið vonir við að þeim framkvæmdum yrði hraðað, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem hefur orðið í landinu um mikinn og alvarlegan kennaraskort. Það að þetta er skorið niður um 70 milljónir hlýtur óneitanlega að seinka framkvæmdum. Ég gat ekki skilið annað af því sem ég las í fjárlagafrv.

Flutningur Þjóðminjasafnsins í Kópavog tók lengri tíma en áætlað var, það er alveg rétt. En ég sé ekki að það afsaki að enn á ný skuli skornar niður þær fjárveitingar sem voru ætlaðar til endurbóta á safninu svo að því seinki um eitt ár að það verði opnað á ný. Ég verð að segja það að einmitt við þessa framkvæmd fannst mér mjög nauðsynlegt að við héldum vel á spöðunum.

Mér þætti fróðlegt að heyra hæstv. menntmrh. skýra frá því hversu mikið grunnviðmiðun í námslánum breytist við þessa innspýtingu sem hann var að skýra frá að kæmi inn í námslánakerfið.

Varðandi Háskóla Íslands þá gleðst ég yfir því ef nú er búið að gera samning sem bindur enda á langvarandi svelti Háskóla Íslands sem verið hefur öllum til vansa. Ég mun fylgjast spennt með hvernig þetta gengur en ég tel að kannski sé fjárhagsvandi háskólans ekki endanlega leystur jafnvel þó að þessi samningur hafi verið undirritaður í morgun. Ég vona samt að svo sé.