Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:36:28 (78)

1999-10-05 18:36:28# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni hér fyrr sagði ég aðeins að fé til framkvæmda hefði verið skorið niður. Ég sagði aldrei að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar. Ef hæstv. menntmrh. hefur skilið mál mitt svo þá hefur hann kannski ekki heyrt alveg hvað ég sagði. Ég sagði að fé til framkvæmda hefði verið skorið niður. Mín reynsla er sú að það seinki framkvæmdum, hvort sem þær eru hafnar eða ekki, ef fé til þeirra er skorið niður.

Kennaraskortinn á að leysa með því að efla fjarnám. Ég er mjög hlynnt því að fjarnám sé eflt en tel jafnframt að fjarnám henti alls ekki öllum. Fjarnám hentar fyrst og fremst því fólki sem hefur unnið við kennslu jafnvel í mörg ár sem leiðbeinendur úti á landi. Og þó ekki því öllu. Til þess að stunda fjarnám þarf mikinn tíma og mikinn sjálfsaga. Ég held að fjarnám, þó að það sé góður kostur þar sem það hentar, geti aldrei leyst þennan vanda eins og hann liggur fyrir í dag.