Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:41:33 (81)

1999-10-05 18:41:33# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það væri gott hafa hóflega skattlagningu, og þá er það spurningin: Hvert er markmiðið? Ætlum við að afla ríkissjóði tekna eða ætlum við að lemja á einhverjum?

Ég tel að markmiðið sé að afla ríkissjóði tekna. Ef lækkun á söluhagnaði hlutabréfa og eigna gefur ríkissjóði núna margfaldar tekjur á við það sem áður var þegar skatturinn var 47%, eftir að búið er að lækka hann niður í 10%. Er það ekki hófleg og góð skattlagning sem gefur ríkissjóði svona miklu meiri tekjur? Hvert er eiginlega markmiðið?

Ég held því að skattlagningarsinnarnir séu á villigötum með því að heimta alltaf meiri og meiri skattlagningu. Þeir eiga að heimta minni skattlagningu til þess að örva atvinnulífið og auka tekjur ríkissjóðs. Það hefur sýnt sig með lækkun skatta á fyrirtæki, sem hafa verið lækkaðar úr 50% niður í 30%. Ég vildi gjarnan sjá þá fara niður í 25% eða jafnvel 20%. (Gripið fram í: Jafnvel 15%?) Nei, ekki lægra en 20%, ég held að 20% gefi hámarkstekjur til ríkissjóðs. Sú skattalækkun hefur aukið tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni margfalt.

Og hvert er markmiðið hjá okkur? Er það að örva atvinnulífið eða drepa það niður? Það hefur nefnilega sýnt sig að lækkun á sköttum eykur framtak og dugnað einstaklinga og fyrirtækja og ég er sannfærður um að ef við lækkum skatta á einstaklinga, miklu meira en við höfum gert hingað til, þá muni menn verða miklu duglegri og við fá miklu meira út úr hverjum manni. Frumkvæði einstaklinga verður miklu meira en er í dag.