Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:44:22 (83)

1999-10-05 18:44:22# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt og skemmtileg umræða. Það var reyndar tvennt sem ég vildi segja í upphafi áður en ég vík að efnisatriðum. Í fyrsta lagi vil ég segja að frv. til fjárlaga og ekki síður fylgigögn um stefnu og horfur og þjóðhagsáætlun eru sérlega vel og greinilega fram sett. Þetta er mikilvægt vegna þess að það auðveldar alla umræðu.

[18:45]

Í annan stað langar mig til að vara við þeim alhæfingum sem fram hafa komið hjá ýmsum hv. þm. sem hafa rætt fjárlagafrv. í dag. Nú síðast er rætt almennt um skatta. Hv. þm. Pétur Blöndal talar um mikilvægi þess að lækka skatta, hann nefndi að fara með þá niður í 20%. Hann sleppir því að geta þess að samkvæmt tillögum sem hann og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson settu fram á síðasta þingi átti einnig að afnema persónuafsláttinn. Sú ráðstöfun hefði þýtt að skattar hefðu hækkað á alla einstaklinga undir 130 þús. kr. á mánuði. Þeir hefðu hækkað á þá einstaklinga en lækkað á hina. Þetta voru þær tillögur sem þeir félagar settu fram á síðasta þingi.

Það er þetta sem við erum að ræða í fjárlfrv. Við erum að ræða um efnahagsstærðir og við erum að ræða um pólitík.

Reyndar sagði hæstv. fjmrh. í útvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum að fjárlagafrv. væri í sjálfu sér efnahagsstærð. Þá átti hann við að í því væru sett fram efnahagsleg og pólitísk markmið. Ég ætla í örfáum orðum að víkja að hvoru tveggja.

Fyrst um hin efnahagslegu markmið. Þar vegur þyngst að ríkisstjórnin vill leita leiða til að slá á þenslu, að hægja á hjólum efnahagslífsins. Í annan stað er það meginmarkmið sett fram að skila ríkissjóði með rekstrarafgangi. Þar hefur talan 15 milljarðar verið nefnd.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná þessum markmiðum? Þar kemur einkum þrennt til sögunnar. Í fyrsta lagi er stefnt að því að draga úr framkvæmdum. Nú skiptir máli um hvaða framkvæmdir er að tefla. Talað er um að draga úr vegaframkvæmdum á suðvesturhorninu. Við höfum heyrt umræðu um að fresta viðbyggingu við Alþingishúsið og þar fram eftir götunum. Þegar á heildina er litið er ég fylgjandi þeirri stefnu á þensluskeiði að ríkið haldi að sér höndum. En hér þarf að forgangsraða vel. Ég væri t.d. ekki fylgjandi því að fresta því að reisa spítala fyrir börn. En ég get vel sætt mig við að fresta vegaframkvæmdum á suðvesturhorninu. Ég get vel sætt mig við að fresta viðbyggingu við Alþingishúsið. Þetta eru ekki hinar stóru efnahagsstærðir en þetta er táknrænt frá hendi Alþingis.

Mér fannst það líka umhugsunarvert sem kom fram hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur, þ.e. samanburður á framkvæmdum á markaði, byggingu verslunarhúnæðis og hins vegar opinberum framkvæmdum því að á markaðnum er þensla og að sjálfsögðu á að horfa til þess sem er að gerast í atvinnulífinu í heild sinni.

Þetta er fyrsta atriðið. Hægt er að draga úr þenslu og hægja á hjólum atvinnulífsins með því að draga úr opinberum framkvæmdum. Þegar á heildina er litið finnst mér það hyggilegt á þenslutímum en þegar þrengir að og þegar atvinnuleysið eykst á ríkið og hið opinbera að þenja út.

En það eru tvær aðrar leiðir til líka. Í fyrsta lagi er hægt að fara þá leið að hækka vexti til að draga úr neyslu og fjárfestingum. Það er hægt að hækka vexti. Sú leið hefur verið farin og studd af ríkisstjórninni. Seðlabankinn hefur hækkað vexti og afleiðingin er sú að vextir hafa hækkað í landinu. Nú kann þetta að hljóma hyggilegt þegar horft er til framtíðar ef þetta tæki aðeins til þeirra lána sem vísa inn í framtíðina. En staðreyndin er sú að á Íslandi eru til tvenns konar tryggingar fyrir fjármagnseigendur. Annars vegar er lánsfjármagnið vísitölubundið, það á við um mjög stóran hluta fjárskuldbindinga, og ofan á þetta koma síðan breytilegir vextir. Hækkun fjármagnskostnaðar vísar því ekki aðeins inn í framtíðina heldur einnig til fortíðar. Þessi efnahagsráðstöfun hefur því og getur haft slæmar afleiðingar fyrir allt það fólk sem skuldar í landinu. Þegar við vorum að ræða olíuverðhækkanir á dögunum var minnt á að hækkunin á bensínverði það sem af er þessu ári hafi aukið skuldir heimilanna um 4,3 milljarða kr. Þetta eru þær álögur sem menn eru að setja á heimilin í landinu og fyrirtækin með ráðstöfun af þessu tagi fyrir utan það að fjármagnskostnaður er þegar á heildina er litið of mikill í landinu. Þetta er eitt.

Önnur leið til að draga úr þenslu eða ráðstöfunartekjum, möguleikum einstaklinga og fyrirtækja til að þenja og spenna, er annaðhvort að rýra kjörin eins og gert er gagnvart barnafólkinu --- barnabætur lækka um 320 milljónir á næsta ári --- eða með því að þyngja skattbyrðarnar, að rýra kjörin með því að draga úr bótum af þessum tagi eða þyngja skattbyrðarnar. Þegar hæstv. forsrh. talar um að bremsa í efnahagslífinu án þess að klossbremsa er hann búinn að finna bremsuborðann. Bremsuborðinn er láglaunafólk og millitekjuhópar í landinu. Með því að láta skattleysismörkin þróast ekki í samræmi við launaþróunina þyngir ríkisstjórnin skattbyrðar á þessa hópa, láglaunahópana og millitekjuhópinn. Hér erum við farin að tala um pólitík. Hér erum við að tala um pólitík þessarar ríkisstjórnar. Það er á kostnað þessa fólks sem á að hægja á hjólum atvinnulífsins.

Ég er ekki að tala um hinar litlu stærðir sem sýna einnig pólitík þessarar ríkisstjórnar, t.d. sú ákvörðun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á í ræðu sinni, að fresta framkvæmdum við styrkingu dreifikerfis í sveitum á raforku um 50 milljónir. Ég er ekki að tala um þessar litlu stærðir þó að þær sýni pólitískt innræti. Ég er ekki að tala um það hvernig þeim peningum er varið sem þarna sparast, í að auglýsa upp alþjóðleg viðskiptafélög sem Íslendingar hafa skotið skjólshúsi yfir að hætti eyja í Karíbahafinu til að hýsa fyrirtæki sem vilja koma sér hjá því að greiða til samfélagsins, koma sér hjá því að greiða skatta.

Þetta er pólitík ríkisstjórnarinnar sem er hægt að finna í ýmsu smáu en líka þessum stóru stærðum sem eru auknar skattálögur á láglaunafólk og millitekjuhópa og barnafólkið í landinu.

,,Á móti vegur`` segir á bls. 331, ,,að áætlað er að barnabætur lækki sem nemur um 320 millj. kr. en þar gætir áhrifa af auknum tekjum heimilanna.`` Viðmiðunarmörkin í barnabótakerfinu eru með öðrum orðum ekki látin fylgja almennri launaþróun og þess vegna fer þetta svona.

Varðandi pólitíkina gerði hæstv. fjmrh. vel grein fyrir henni í ræðu sinni áðan. Hún snýr m.a. að skipulagsbreytingum hjá hinu opinbera. Hann boðar áframhaldandi einkavæðingu. Hann boðar einkaframkvæmd. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Áfram verður unnið að nýskipan í ríkisrekstri, m.a. með auknum útboðum og sameiningu og styrkingu stofnana, þjónustusamningum og auknu svigrúmi og ábyrgð stjórnenda. Kostir einkaframkvæmdar verða áfram nýttir þar sem það á við, stefnt að einfaldari og skilvirkari ríkisrekstri og stuðlað að aukinni ráðdeild í meðferð opinberra fjármuna.``

Fróðlegt væri að hæstv. fjmrh. gerði þinginu grein fyrir því hvar einkaframkvæmdin á við. Við vitum að hæstv. heilbrrh. er að bjóða út gamla fólkið. Ístak og önnur fyrirtæki eru að taka að sér að reisa og reka elliheimilin. Við vitum hvað er að gerast í skólakerfinu. Þar er verið að reisa og búið að reisa reyndar skóla á vegum fyrirtækis sem ég man ekki hvað heitir, í Hafnarfirði. Það er iðnskólinn þar. Reyndar stóðu margir í þeirri trú að þeir væru að setjast upp í Rolls Royce en það reyndist síðan vera Trabant. Þetta er ekki eins fallegt og sniðugt og menn höfðu vænst enda er hugmyndin náttúrlega að reyna að skera niður og komast hjá því að rækja þessa starfsemi og reka sómasamlega.

En ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri okkur grein fyrir því hvar hann telji einkaframkvæmd eiga við eins og hann komst að orði. Er það innan heilbrigðiskerfisins? Er það innan skólakerfisins? Á að vinna þar stærri lönd? Hvaða hugmyndir eru uppi í þessu efni?

Tími minn er á þrotum og ég ætla að nota síðustu hálfa aðra mínútuna sem ég hef til að vara við alhæfingum um launaþróun. Hv. þingmenn hafa að mínum dómi gengið of langt í því efni. Annars vegar hafa menn stillt upp sem andstæðum opinberum starfsmönnum og starfsmönnum á almennum launamarkaði. Þetta er rangt. Ekki er hægt að stilla þessum hópum upp sem andstæðum.

Stórir hópar innan opinbera kerfisins hafa hækkað verulega. Aðrir hafa ekki gert það. Á almennum launamarkaði hefur víða orðið mikið launaskrið og hópar hafa hækkað verulega í launum. Aðrir hafa staðið í stað. Það sem verra er, er að á báðum vígstöðvum hefur launalægsta fólkið fengið minnstu hækkanirnar. En hálaunafólkið eða þeir sem standa ívið skár hafa fengið mestar hækkanirnar. Þetta á náttúrlega sérstaklega við um ríkið, sérstaklega skjólstæðinga Kjaradóms og kjaranefndar. Það hefur verið hugsað mjög vel um þá aðila eins og fyrri daginn. Við deilum ekki við dómarann, sagði hæstv. forsrh. einhvern tíma þegar verið var að færa meintar yfirvinnugreiðslur inn í grunntaxtann þar á bæ. Ég held að búið sé að gera það þrisvar eða fjórum sinnum núna á síðustu tveimur árum. Ég skal ekki fullyrða um það á hvaða tímabili það hefur gerst. Við þingmenn þekkjum að laun þingmanna voru hækkuð verulega strax eftir kosningar. Enn meira voru laun hæstv. ráðherranna og toppanna í ríkiskerfinu hækkuð. En innan hins opinbera hafa stórar og fjölmennar sveitir, stærstu og fjölmennustu hóparnir, láglaunahóparnir, staðið í stað og ekki borið neitt úr býtum.