Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 19:24:04 (86)

1999-10-05 19:24:04# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[19:24]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er að koma að lokum þessarar umræðu og umræðan hefur ... (Gripið fram í.) Nei, ,,það er ekki víst``, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ef ég þekki hann rétt þá kann vel að vera að sú umræða sem hann vill vekja hér gæti staðið lengi kvölds.

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þessari umræðu til þessa og vildi geta þess í upphafi að ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki haft tíma til þess að setja mig nægilega vel inn í frv. sjálft. En í lok þessarar umræðu, eða því sem ég tel að kunni að vera lok hennar, þá langar mig eigi að síður, herra forseti, að rifja upp nokkrar forsendur frv. sem ég hef numið af vörum hæstv. fjmrh. í ræðum hans í dag og bera saman við orð hans fyrr á þessu ári. Ég leyfi mér að gera það út frá prýðilegri ræðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar þar sem hann talaði áðan um illkynja hagvöxt. Það voru orð að sönnu hjá hinum vísa klerki. Hagvöxturinn sem drífur efnahag þjóðarinnar núna og er undirrót þeirrar góðu stöðu ríkisfjármálanna sem hæstv. fjmrh. birtir hér með nokkru stolti, er einmitt illkynja hagvöxtur.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson vísaði í orð hæstv. forsrh. í gær þar sem hæstv. forsrh. sagði að staðan í ríkisfjármálunum væri slík að annaðhvort næðum við mjúkri lendingu eða við brotlentum með verulegum þjáningum margra. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh. Og það var prýðilega til fundið hjá hv. þm. Hjálmari Jónssyni að leiða þannig fram orð leiðtoga lífs síns til þess að sýna alvarleika málsins.

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Jónsson var önnum kafinn í kosningabaráttu á Norðurlandi þegar aðrir menn bentu á nákvæmlega þetta. Hann heyrði e.t.v. ekki þau varnaðarorð. En hæstv. forsrh. heyrði þau og hæstv. fjmrh. líka. Það var þá sem ég sagði í kosningabaráttunni að í ríkisfjármálunum væri tifandi tímasprengja. Hæstv. forsrh. fékk hláturskast yfir þessum orðum, vísaði þessu algerlega á bug og sagði að þessum ágæta þingmanni og fyrrv. félaga úr ríkisstjórn væri sæmst að hyggja að því sem hann kynni sæmilega sem væri kynlíf laxa, en láta efnahagsmálin eftir fróðari mönnum. Og hæstv. fjmrh. sem er að vísu ekki alveg eins fyndinn og hæstv. forsrh. vísaði þessu alveg á bug.

Nú er það svo að ég hef starfað með hæstv. fjmrh. og veit að hann er drengur góður. En ég hef velt því fyrir mér hvort það hafi verið tækifæris- og hentistefna hjá hæstv. fjmrh. að viðhafa þau orð sem hann hafði þá í kosningabaráttunni þegar hann vísaði því algerlega á bug að eitthvað væri að í ríkisfjármálunum eða hvort hann hafi vísvitandi verið að blekkja. Hæstv. fjmrh. hlýtur að lýsa því yfir hér á eftir hvernig á því stendur að í kosningabaráttunni hafi hann vísað því algerlega á bug að nokkuð væri að. Þá var honum bent á að sá hagvöxtur sem hann stýrir nokkuð farsællega um þessar mundir er það sem hv. þm. Hjálmar Jónsson kallaði réttilega illkynja hagvöxt.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson orðaði það svo áðan að það gæti farið svo að hagvöxturinn yrði jafnvel meiri en menn tala um í fjárlagafrv. og ég óttast að hann hafi rétt fyrir sér, herra forseti, og er að því leyti til ósammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem taldi fyrr í dag að ríkisstjórnin ætti í seli vegna þess að líklegt væri að hagvöxturinn yrði meiri en þau 2,7% sem gert er ráð fyrir. Ég held nefnilega að hagvöxtur umfram það væri afar óæskilegur og yrði okkur mjög erfiður við þær kringumstæður sem við búum við núna.

Herra forseti. Ég kem hér til þess að rifja það upp að þegar ég kom fram og benti á tifandi tímasprengju sem er undirliggjandi viðskiptahalli í ríkisfjármálunum, þá var gert grín að því. Hæstv. forsrh. sem ekki er í salnum í kvöld sagði opinberlega að ekkert væri að, staða ríkisfjármála væri bara furðu góð, verðbólgan væri undir góðri stjórn og menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af viðskiptahalla vegna þess að hann mundi fara minnkandi. Og það voru leiddir fram kjölturakkar úr Háskóla Íslands, þar á meðal formaður stjórnar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem vitnuðu gegn betri vitund um að hæstv. forsrh. hefði rétt fyrir sér. Gegn betri vitund segi ég, herra forseti, vegna þess að allt það sem þá lá fyrir í prentuðum textum sérfræðinga mælti til alls annars en þeirrar niðurstöðu.

Ég velti því áðan upp hvort hæstv. fjmrh. hafi verið að blekkja vísvitandi, eða vissi hann einfaldlega ekki betur? Ég þekki hæstv. fjmrh. ekki að því að koma í þennan sal og halda gegn betri vitund fram röngum hlutum. Ég vísa til þess, herra forseti, að hæstv. fjmrh. sagði líka á sumarþinginu að viðskiptahallinn væri að minnka og ég er viss um að hann talaði þá eins og hans skilningur var. En nú blasir við að það sem hæstv. fjmrh. sagði þá var rangt. Viðskiptahallinn er ekkert að minnka. Þá komum við að eftirfarandi spurningu: Hversu góðan skilning hefur hæstv. fjmrh. á stöðu ríkisfjármála? Ef hann hafði rangt fyrir sér í kosningabaráttunni og ef hann hafði rangt fyrir sér eftir hana, á sumarþinginu, getur þá verið að hann hafi líka rangt fyrir sér núna þegar hann kemur og segir: ,,Undirstöður fjárlaganna eru traustar``?

[19:30]

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að þessi ágæti hæstv. fjmrh., sem er þannig í laginu að maður þarf ekki annað en líta á hann til þess að um mann fari notaleg tilfinning um velsæld, (Gripið fram í: Segir hver?) gleymdi að geta eins atriðis í ræðu sinni. Ég hef að vísu ekki lesið hina skrifuðu ræðu hans en ég hlustaði á það sem hraut af vörum hans í dag. Það var nákvæmlega eitt atriði sem hann nefndi ekki og það er viðskiptahallinn. Hæstv. ráðherra nefndi hann ekki í ræðu sinni í dag. Hann talaði um flesta aðra hluti en staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekkert sem kemur fram af hálfu ríkisstjórnarinnar um það hvað hún ætlar að gera til að draga úr viðskiptahallanum. Hæstv. ráðherra sagði m.a. í dag að vilji ríkisstjórnarinnar væri skýr og kæmi m.a. fram í því að Seðlabankinn hefði hækkað vexti fjórum sinnum á þessu ári. Er það nóg, herra forseti?

Hv. þm. Hjálmar Jónsson sagði áðan að það væri þrennt sem menn kynnu nauðsynlega að grípa til ef ekki næðist hin hæga mjúka lending og það væri hækkun vaxta enn einu sinni, það væri hækkun skatta eða niðurskurður framkvæmda. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni í dag að tekjuafgangurinn í fjárlagafrv., þ.e. 15 milljarðar, sýndi vilja ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála því og dreg það ekki í efa, það sýnir vilja ríkisstjórnarinnar.

Getum við, miðað við þau dæmi sem við höfum um innsýn hæstv. fjmrh. í gang ríkisfjármálanna, treyst því að þessir 15 milljarðar séu nægir? Hæstv. fjmrh. fór með spott og flím þegar ég kom fram með spádóma mína um gang efnahagsmálanna í kosningabaráttunni en þeir hafa allir gengið eftir. Þegar ég sagði að verðbólgan mundi aukast hlógu þeir en nú velta menn því ekki einu sinni fyrir sér hvort hún er farin af stað því að hvar sem þeir horfa sjá þeir að hún hefur geyst af stað. Við skulum vona að það takist að setja taum á þessa skepnu en ég er ekkert viss um það. Þegar hæstv. fjmrh. kemur og ber sér á brjóst, er óhjákvæmilegt annað en draga það fram að það var hann sem stýrði þeim mistökum sem gerðu það að verkum að við erum í þessari stöðu í dag. Þegar ég segi hann á ég við embættið sjálft, hann eða forvera hans. Það skiptir ekki máli fyrir mig. Það var fjmrh. Sjálfstfl. sem stóð fyrir aðgerðum sem urðu beinlínis valdandi að því ástandi sem er í dag.

Það kom t.d. fram í ræðu hæstv. fjmrh. og í andsvari við hv. þm. Gísla S. Einarsson að það væri tóm vitleysa að lækka skatta í góðærinu. Hv. þm. Gísli S. Einarsson var því hjartanlega sammála enda ekki nema von. Samfylkingin hélt þessu fram í kosningabaráttunni. Ég hélt þessu ítrekað fram í opinberum samræðum við hæstv. fjmrh. sem lét sig einu sinni hafa það að halda því fram að það væri dæmigert fyrir Samfylkinguna að hér væri fulltrúi hennar að leggjast gegn skattalækkunum. Það var hárrétt, ég gerði það. Með öðrum orðum, það sem hæstv. fjmrh. segir núna að sé bull að gera í góðæri, það gerði hann fyrir kosningar þegar hann lækkaði skattlagningu allverulega og allir sérfræðingar sem hæstv. fjmrh. getur fundið á þessu landi eru sammála því að það hafi verið heimskuleg aðgerð.

Hæstv. fjmrh. talar líka um þenslu í bankakerfinu og það er staðreynd að bankarnir, sem ríkisstjórnin á stóran og styrkan meiri hluta í, eiga verulega sök á því þensluástandi sem er núna. Þeir eru að búa sig undir samruna og endurskipulagningu bankakerfisins og hvernig gera þeir það? Með því að taka fé að láni og þrýsta því út með alls konar gylliboðum. Hverjir hafa gert gert þeim það kleift? Hæstv. fjmrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh. Hvernig? Með því að þeim urðu á gróf mistök þegar þeir hleyptu af stað einkavæðingu ríkisbankanna, ekki einkavæðingin sjálf heldur aðferðin sem notuð var. Í stað þess að selja það hlutafé sem fyrir var juku þeir það og gerðu bönkunum þar með kleift að taka meiri lán og ýta út meiri peningum. Þriðju mistökin sem hægt er að rekja til þeirra ágætu herra sem stjórna landinu er kannski sálfræðilegs eðlis.

Það er skammt síðan haldinn var fundur hér í bæ um verðbólgu. Þar kom fram aðalsagnfræðingur Seðlabankans og lýsti því yfir að ofurbjartsýni væri eitt af því sem gæti aukið þensluna upp á hin hættulegu mörk. Muna menn eftir því að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. héldu blaðamannafund einhvern tíma á útmánuðum í ráðherrabústaðnum og eina tilefni fundarins var að segja þjóðinni að það væri góðæri í landinu og það væri líklegt að það mundi ríkja áfram? Hvaða áhrif hefur það þegar tveir helstu leiðtogar ríkisstjórnar, sem nýtur mikils fylgis, koma og segja þetta? Hin sálfræðilegu áhrif eru auðvitað þau að menn telja að þeir muni að búa við góðan hag á næstu árum og þess vegna leyfa menn sér það, vegna þeirrar auknu bjartsýni sem þessir menn keyptu undir að taka meiri lán, eyða meira, spenna meira. Það er þetta sem er orsökin að því sem hv. þm. Hjálmar Jónsson réttilega kallar illkynja hagvöxt. Orsök hins illkynja hagvaxtar, sem hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur fundið á líkama þjóðarinnar, er að leita í ríkisstjórn Íslands. Ég spyr enn, herra forseti: Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að draga úr viðskiptahallanum?

Hann hafði rangt fyrir sér þegar hann sagði að viðskiptahallinn væri ekki kominn á hættuleg mörk, hann hafði rangt fyrir sér þegar hann sagði á sumarþinginu að hann væri að minnka. Hann er ekki að minnka. Það er þessi viðskiptahalli sem veldur því að það er langtíma ójafnvægi í efnahagskerfinu sem mun valda því að þrátt fyrir hækkanir Seðlabankans á þessu ári og styrkingu krónunnar sem af því leiðir mun krónan veikjast þegar fram í sækir. Það gæti lent til þess sem hæstv. forsrh. kallaði sjálfur í ræðu sinni og taldi ástæðu til þess að ávarpa sérstaklega, brotlendingar. Það getur leitt til gengisfalls og rýrnandi kaupmáttar og atvinnuleysis. Ég segi það, herra forseti, þessir menn sem koma hér og berja sér á brjóst yfir því hvað þeim hefur tekist vel upp eru ástæðan fyrir því að sá möguleiki, sem hæstv. forsrh. sér á sjóndeildarhringnum, er til staðar.