Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 13:51:57 (96)

1999-10-06 13:51:57# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til þess í upphafi að þakka þá viðleitni sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. sýnir með því frv. sem hér er til umræðu í því að reyna að stuðla að lækkun bensínverðs. Allir vita að á þessu ári hefur átt sér stað gífurleg hækkun á bensínverði sem gengið hefur úr öllu hófi og ég mun koma nánar að í mínu máli.

Ég vil rifja það upp að á vorþingi flutti Samfylkingin frv. einmitt um það að draga úr því háa bensínverði sem þá var með því að fella úr gildi heimild ráðherra til þess að hækka bensíngjald sem gert var í júnímánuði sl. Það var auðvitað hluti af þeirri viðleitni Samfylkingarinnar að leggja sitt af mörkun til viðnáms gegn verðbólgunni sem þá var komin á fullt. Þá báru stjórnarliðar ekki gæfu til þess að fallast á þessa tillögu Samfylkingarinnar, en nú á haustdögum sjá þeir auðvitað að þetta gengur ekki og eru að taka undir það sem Samfylkingin boðaði á vordögum.

Ég vil nefna það líka í upphafi máls míns að Samfylkingin mun eins og kostur er greiða fyrir því að frv. nái fram að ganga og verði sem fyrst að lögum, en mun í máli mínu á eftir gera grein fyrir athugasemdum mínum og Samfylkingarinnar við frv. sem við ætlumst til að verði tekið til ítarlegrar umræðu í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar vegna þess að þegar grannt er skoðað og farið ofan í málið þá er ekki þar allt sem sýnist.

Allir vita um þá hækkun sem orðið hefur á bensínverði á þessu ári sem er sennilega nálægt því að vera 26--27% hækkun. Bensínverð hefur hækkað úr 70,20 kr. í 88,60 kr. Ríkið tekur vissulega til sín obbann af þessu verði og er áætlað að um 70% af bensínverðinu sé hreinn skattur til ríkisins. Því er eðlilegt þegar þessi þróun hefur orðið og þetta hefur átt það mikinn þátt í að koma verðbólgunni af stað að ríkisstjórnin sýni þá viðleitni sem hún gerir með þessu frv.

FÍB og Alþýðusambandið hafa reiknað út ýmsar stærðir í þessu sambandi, sem er ástæða til þess að rifja upp í þessari umræðu og draga fram. Ef við tökum ekki með síðustu hækkun sem varð á bensínverði, um 2 krónur að mig minnir, þá var áætlað að hjá eiganda smábíls næmi sú hækkun sem orðið hefur á þessu ári um 700 kr. fyrir eina áfyllingu. Það samsvarar að bein ársútgjöld vegna bensínkaupa á þessum bíl hækki um sem nemur 30 þús. kr. á ári. Við erum því ekki að tala um neinar smáfjárhæðir. Þessar hækkanir hafa haft mikil áhrif á vísitöluna og átt sinn þátt í að magna upp verðbólguna vegna þess að margfeldisáhrifin sem hækkunin hefur haft á verðlagsþróunina er töluverð. Mig minnir að rætt hafi verið um að vísitöluáhrifin af bensínhækkuninni séu um 1%. Og það þýðir að greiðslubyrði af 6 millj. kr. láni hefur hækkað um 60 þús. kr. Til þess að mæta eingöngu þessari hækkun á greiðslubyrði, sem er afleiðing af bensínhækkuninni, þyrfti sá sem greiða þarf af 6 millj. kr. láni að fá tekjur sínar hækkaðar um 100 þús. kr. til þess að standa í sömu sporum og áður en allar þessar hækkanir dundu yfir.

Hækkun á tryggingaiðgjaldi hefur líka verið mikil eins og við þekkjum, eða um 40%, og má áætla að ekki sé óalgengt að það hafi hækkað iðgjaldagreiðslur bíleigenda um 12--15 þús. kr. Það hefur komið fram að áhrif þess á skuldir heimilanna eru að þær hafa aukist um 4,3 milljarða vegna hærra bensínsverðs og þá erum við að miða við september sl.

Það er alveg rétt sem hæstv. fjmrh. nefndi að þetta er mikið notaður skattstofn og ríkið hefur miklar tekjur af bílnum og bíleigendum. En ég held að þær séu kannski miklu meiri hér en þekkist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Það er áætlað að ríkissjóður fái sem samsvarar 4% af vergri þjóðarframleiðslu í tekjur af umferðinni meðan meðaltal annarra Evrópuþjóða er um 3%. Ég held að við verðum að átta okkur á því að við erum komin á ystu mörk þess sem forsvaranlegt er að ríkissjóður taki í sinn hlut af bensínverðinu til þess að það sé ekki orðinn algjör lúxus að eiga og reka bíl og það verði hægt áfram fyrir meðalmanninn. Þess vegna verðum við að reyna að tryggja í þeirri lagasetningu sem verið er að vinna að núna í þinginu og fer fyrir efh.- og viðskn., að þessi breyting verði varanleg og skili sér örugglega til þess að lækka kostnað bifreiðaeigenda og draga úr útgjöldum heimilanna. Þar kem ég einmitt að því sem ég óttast nokkuð í þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur hér til.

Ég vil áður en ég fer í frv. nefna að komið hefur fram að tekjur ríkissjóðs af bílum og umferð séu um 30 milljarðar á ári eða um 200 þúsund á hvern bíleiganda. Ég held að mikilvægt sé að hafa í huga að þær sveiflur sem orðið hafa á þessu ári hafa skilað sér mjög í því að auka tekjur ríkissjóðs. Það er allt gott og blessað. En við erum bara komin of langt í því að skattleggja bifreiðaeigendur.

Í frv. er þess getið hvernig hæstv. fjmrh. fær þá viðmiðun sem hér er notuð, þ.e. að í stað þess að hafa 97% vörugjald eins og nú er í lögum, þá eigi að greiða ákveðna krónutölu, 10,50 kr. vörugjald af hverjum lítra af bensíni. Þetta er fundið út með því að taka meðaltal af bensínverði síðustu fimm ára, þ.e. 1994--1998. Þannig fæst út 10,56 kr.

[14:00]

Auðvitað er það rétt sem hæstv. ráðherra segir að það skiptir máli hvaða viðmiðun er notuð. Spurning er hvort þetta sé rétt og eðlileg viðmiðun sem hér er dregin fram. Skoðun mín er sú að hvorki aðferðin né viðmiðunin, sem hér er notuð, sé rétt. Segjum svo að hæstv. fjmrh. hefði notað viðmiðun við meðaltal vörugjalds af bensíni fyrir árið 1998 og það sem af er þessu ári, þ.e. fyrstu níu mánuðina, fengið út þar meðaltal og það væri sú krónutala sem við værum að fjalla um núna, þá yrði krónutalan 9,32 kr. en ekki 10,56 kr. Þetta er auðvitað allt spurning um hvaða meðaltal menn velja sér. Meðaltalið 1998 er 9,30 kr. eins og hér kemur fram en hæstv. ráðherra lætur þess ekki getið hvert meðaltalið er fyrstu níu mánuði þessa árs í þeim töflum sem hér eru sýndar, en það eru fyrstu níu mánuðina, til september 1999, 9,34 kr. Þarna er því verið að fara þá leið sem gefur meiri tekjur í ríkissjóð en skilar sér minna til bifreiðaeigenda með því að taka meðaltal síðustu fimm ára. Síðan er málið skilið eftir þannig að verði sveiflur í bensínverði og verð á heimsmarkaði breytist svo að það lækkar verulega og niður fyrir þessa tölu er það ríkissjóður sem græðir vegna þess að krónutalan er föst. Við skulum hafa það í huga að heimsmarkaðsverðið hefur sveiflast mjög mikið á þessu ári og alveg farið niður í 6 kr. en þarna er verið að negla niður tölu sem er 10,50 kr. en meðaltalið 9,34 kr. á þessu ári. Sú viðmiðun sem hæstv. ráðherra hefur fengið og ríkisstjórnin leggur til er því alls ekki sjálfgefin.

Ég hefði talið að hagstæðara væri að fara aðra leið og þá í ljósi þess sem ég sagði áðan að við erum komin á ystu mörk þess sem hægt er í skattlagningu á bifreiðaeigendur. Ég hefði lagt til, og ég tel að hv. efh.- og viðskn. eigi að skoða þá leið, að halda þeim lagatexta sem er inni, þ.e. að af bensíninu skuli greiða 97% vörugjald en á því væri þak, þó ekki hærra en einhverjar x krónur sem efh.- og viðskn. mundi komast að niðurstöðu um. Ég teldi eðlilegt að það væri meðaltal síðasta árs og þessa árs sem væri þá 9,32 kr. sem er rúmlega krónu lægra en hæstv. fjmrh. leggur til.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því sem hæstv. ráðherra sagði, hvað hver króna í lækkun á bensínverði þýðir, 200 millj. Þá skulum við hafa í huga hvað það er mikið sem ríkissjóður hefur fengið inn af þessari 26--27% hækkun sem hefur orðið á þessu ári til viðbótar því sem forsendur fjárlaga í ár gerðu ráð fyrir. Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Hver er sá tekjuauki sem ríkissjóður hefur fengið á þessu ári miðað við það sem ráð var fyrir gert í fjárlögum þegar við lítum á þá hækkun sem hefur orðið á bensínverði á þessu ári frá 70 kr. upp í tæpar 90 kr.? Þetta tel ég miklu eðlilegri leið og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hugsanlegt sé að einhver sátt geti náðst um þá leið sem ég nefni, bæði þá aðferð sem ég nefndi og líka varðandi viðmiðunina ef við tökum síðasta árið og það sem af er þessu ári.

Síðan er ég mjög hugsi yfir þeim texta sem lagður er til varðandi hið sérstaka bensíngjald sem rennur til vegagerðar. Þá er ég að vitna í það sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um þessa breytingu þar sem verið er að kippa úr sambandi sem má vera að sé eðlilegt og rétt að bensíngjaldið sérstaka taki mið af þeirri hækkun sem verður á byggingarvísitölu, ef ég man rétt, og það falli brott en í staðinn verði þetta ákveðið í fjárlögum hverju sinni, þ.e. hvert bensíngjaldið verður. Hérna segir, með leyfi forseta:

,,Í stað þess yrði þá að breyta lögum þegar ástæða þætti til að breyta bensíngjaldinu, t.d. vegna verðlagsþróunar.`` --- Síðan kemur orðrétt, með leyfi forseta, en það er fjárlagaskrifstofan sem hefur sett þetta á blað: --- ,,Tekjum af sérstöku vörugjaldi er varið til vegagerðar. Til að þær tekjur og samsvarandi útgjöld til vegamála haldist óbreytt eða svipuð miðað við núgildandi lög verður að gera ráð fyrir að bensíngjaldinu verði breytt reglulega í samræmi við forsendur fjárlaga og vegáætlunar hverju sinni.``

Nú liggja forsendur fjárlaga fyrir næsta ár fyrir þó að þær geti vel og eðlilega tekið breytingum í meðförum þingsins en miðað við það sem liggur núna fyrir í fjárlögum, þá spyr ég: Hvert yrði bensíngjaldið að vera á næsta ári? Af því að það á að taka mið og vera breytt reglulega í samræmi við forsendur fjárlaga og vegáætlunar hverju sinni. Bensíngjaldið var 1. júní 28,60 kr. Hvað má þá áætla að það verði miðað við forsendur fjárlaga? Hafi ráðherrann getið þess í ræðu sinni áðan fór það fram hjá mér en ég bið um að hann gefi þingheimi einhverjar upplýsingar um það hvert bensíngjaldið yrði þá. Bensíngjaldið hefur nefnilega hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar og segja má að á síðasta kjörtímabili hafi það á hverju einasta ári hækkað um eina krónu. Það var t.d. 1996 rúmar 25 kr. og er orðið tæpar 29 kr. núna. Það er því nauðsynlegt innlegg inn í umræðuna að við fáum að vita hvert bensíngjaldið á að vera og hvort við og bifreiðaeigendur getum átt von á því að það sem er verið að lækka núna að því er varðar vörugjaldið, a.m.k. núna í svipinn meðan heimsmarkaðsverðið er eins og það er og miðað við þessar 10,50, að þetta verði allt saman tekið til baka inni í bensíngjaldinu sjálfu, þær rúmu 2 kr. sem verið er að lækka vörugjaldið um miðað við þá viðmiðun sem hæstv. ráðherra er að leggja hér til. Með þessu er ég að velta fyrir mér hversu lengi þær halda, þessar 2 kr. eða rúmar 2 kr., sem verið er að leggja til að bensínverð lækki. Þess vegna held ég að það sé miklu traustara ef við meinum eitthvað með því að komið sé að því að það þurfi að draga úr skattheimtunni að því er varðar bensínverð og það verði viðvarandi, þá sé miklu traustara að fara þá leið sem ég legg til.

Ég held nefnilega að það sé miðað við hvað hefur verið tekið af bifreiðaeigendum til ríkisins þegar heimsmarkaðsverð lækkar, þá eigi bifreiðaeigendur líka að njóta þess en ekki ríkissjóður eins og ég skil málið verði þetta frv. að lögum.

Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vil nefna að athyglisvert er að skoða það hvernig skattlagning á bensíni er og bensínverð í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er alveg ljóst að hér á landi erum við mjög ofarlega hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við að því er varðar bensínverðið. Ég er með samantekt sem fram kom í sænsku blaði þar sem borið er saman bensínverð í 22 löndum og þar trónir Noregur efst en síðan kemur Ísland. Bensínverð er t.d. mun lægra í Danmörku og Svíþjóð svo dæmi sé nefnt. Sem sagt, af 22 löndum er bensínverð næsthæst hér á landi. Það staðfestir bara, herra forseti, það sem ég sagði að við erum komin á ystu mörk þess sem er mögulegt að því er varðar skattlagningu á bifreiðaeigendur.

Að lokum velti ég fyrir mér gildistökunni þessara laga. Hæstv. ráðherra nefndi það í máli sínu og mér fannst hann vera með hálfgerðar hótanir við þingheim, að ef þið afgreiðið þetta ekki fljótt og vel þá græðir bara ríkissjóður áfram á öllu saman en bifreiðaeigendur tapa. Ég nefndi það í upphafi máls míns og segi það í lokin að Samfylkingin mun stuðla að því að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu en jafnframt eðlilega umfjöllun í nefnd og að þeir verði kallaðir til sem þurfa að svara nefndinni og hún fái eðlilega og vandaða umfjöllun. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hægt væri að festa gildistökuna við dagsetninguna t.d. 1. október eða eitthvað því um líkt þannig að ekki þurfi að vera þessi svipa yfir þingmönnum sem hann nefndi.

Ég ítreka spurningar mínar sem voru tvær eða þrjár: Í fyrsta lagi hve miklar tekjur ríkissjóður hefur haft á þessu ári umfram forsendur fjárlaga fyrir þetta ár? Í annan stað hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn til þess að styðja við þá tillögu eða hugmynd sem ég hef hreyft, bæði varðandi viðmiðun á þeirri tölu sem hér er lagt upp með, þ.e. sé miðað við 1998 og 1999 og eins þeirri aðferð sem ég hef talað fyrir.