Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:26:31 (107)

1999-10-06 14:26:31# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur þá skýrst að áform Samfylkingarinnar um umhverfisgjöld eru ekki áform um nýjar tekjur, hins vegar áform um aukin útgjöld. Það er dálítið erfitt að láta það ganga upp, að hafa aukna peninga til ráðstöfunar í einhver tiltekin verkefni en afla engra nýrra tekna til að standa undir því.

Af svari hv. þm. má ráða að áformin um umhverfisgjöld á umferðina séu í raun skattur á ríkissjóð. Það eigi að taka peninga sem í dag fara í ríkissjóð til þessara verkefna. Það þýðir væntanlega að skera þarf niður útgjöld ríkissjóðs á móti eða að afla nýrra tekna. Ég spyr hv. þm.: Hvort eru áform Samfylkingarinnar að skera niður útgjöld ríkissjóðs, t.d. með því að skerða bætur til einstaklinga eða að taka upp nýja skatta?