Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:43:17 (111)

1999-10-06 14:43:17# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég lít svo á að skattlagning í samgöngum sé samgöngupólitískt mál og mundi því vilja óska þess að hæstv. samgrh. sé viðstaddur.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. samgrh. er ekki í húsinu en honum hafa verið send skilaboð.)

Takk fyrir.

Við Íslendingar erum afar háðir samgöngum. Landið er stórt og dreifbýlt og þarf ekki að lýsa því. Hvers konar aðgerðir í samgöngumálum hvort sem er vegarlagning eða skattlagning á notkunina er samgöngupólitískt mál. Allt slíkt ber því að skoða í því ljósi, ekki síst þar sem við vitum að skattlagning á samgöngur og notkun bifreiða er einn af stærri tekjuliðum ríkisins og hefur mikil áhrif á verðlag og neyslu. Á þessu ári höfum við einmitt upplifað verulega hækkun á eldsneyti sem hlýtur að hafa samgöngupólitísk áhrif. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þetta er ekki bara skattamál heldur samgöngupólitískt mál. Ég geri þó ráð fyrir því að innan svo samhentrar og góðrar ríkisstjórnar sé fullt samráð og þetta sé unnið allt í samráði við hæstv. samgrh. Þess vegna vildi ég gjarnan heyra hans almenna mat, sem ábyrgðaraðila fyrir framkvæmd pólitískrar stefnu í samgöngumálum, á þessari skattheimtu og þá kannski almennt á svipaðri skattheimtu sem viðgengst í samgöngukerfi okkar.

[14:45]

Sú lagabreyting sem er til umræðu um að breyta þarna í fast gjald úr prósentugjaldi er í sjálfu sér eðlileg bæði út frá sjónarmiðum ríkissjóðs að fá nokkuð fastan grunn til að byggja á í fjárlagagerð sinni og fjárlögum og eins náttúrlega viss trygging fyrir neytandann, miðað við það sem nú er, að þetta fari ekki upp úr öllu valdi við hækkanir á bensíni. Þetta hefur rokkað talsvert til á síðasta ári, þetta hefur rokkað til síðan lögin voru sett frá rúmlega einum og hálfum milljarði og upp undir tvo, þannig að eðlilegt er að þetta hafi áhrif. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga eða við í okkar flokki þó að þessi leið sé valin. Ég hygg þó að þegar á heildina er litið megi búast við að sú krónutala sem þarna er sett, hversu vel grunduð hún er, feli í sér skattahækkanir. Því að það er bæði það að þarna er tekið mið af ákveðnu meðaltali aftur í tímann og þess gætt að ríkissjóður tapi ekki, og hins vegar má búast við við að aukin notkun verði á bensíni þannig að þetta muni vafalaust leiða til einhverrar skattahækkunar og aukinna tekna.

Úr því að farið er að krukka í lög um gjald af ökutækjum, þá liggur inni afar meinlegur tittur frá breytingum á síðasta vetri, sem ég hefði gjarnan viljað varpa til hæstv. fjmrh., hvort hann hefði ekki viljað taka með í púllíunni. En það er álagning fastagjalds upp á 100 þús. kr. á vörubíla og tæki sem fara kannski aldrei út á veg. Þetta er afar ósanngjarn álagning. Bændur sem eiga vörubíla og nota til heyflutninga heim til sín verða að borga 100 þús. kr. í fastagjald plús notkunina án þess að fara nema einstaka sinnum út á veg. Sömuleiðis er um að ræða ýmis tengi- og vinnutæki sem fara nánast aldrei út af sínu vinnusvæði.

Ég skil ekki hvernig þessi meinlega tekjuinnheimta hefur komist inn. Ég þekki bændur sem hafa annað við peningana að gera en að borga ríkinu veggjald af vörubílnum sem stendur heima á hlaði. Þeir hafa orðið að taka númerið af bílnum og geyma. Ég treysti því bara á réttlætistilfinningu ráðherra að þeir taki þetta með í púllíunni. Þarna er sjálfsagt ekki um neinar stórupphæðir að ræða en réttlætismál.

Ég vil svo líka, eins og hér hefur komið fram, leggja áherslu á samgöngupólitíkina. Almenningssamgöngur eru að dragast saman um land allt. Við heyrum nú að það sé óvíst hvort t.d. Norðurleiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur, muni starfa miklu lengur. Það eru a.m.k. vangaveltur um það. Sífellt fleiri hefðbundnar leiðir eru að leggjast af vegna margháttaðra breytinga, sumar svo sem til góðs en aðrar til hins verra. Núna eru stórir landshlutar þar sem engar almenningssamgöngur eru að verða eftir, hvorki flugsamgöngur né langferðabílar.

Þetta á svo líka við um almenningssamgöngur innan byggðarlaga. Það er verið að stækka byggðarlög, bæta vegi og treysta innviði þess, gera sem flestum mögulegt að sækja þjónustu innan ákveðins byggðarlags og þá er líka mikilvægt að einmitt sé hugað að þessum þætti, almenningssamgöngum. Þegar við erum að fjalla um gjaldtöku af samgöngumálum hljótum við að verða að skoða þetta allt í heildarmynd því að við erum þó að innheimta um eða yfir 30 milljarða á ári af þessari notkun almennings.

Ég vildi árétta þær breytingar sem þarna eru lagðar til, bæði breytinguna um að setja á fast gjald og breytinguna um að fella niður þessa sjálfkrafa tengingu á sérstöku vörugjaldi. Þetta er samgöngupólitísk aðgerð og ég hefði gjarnan viljað heyra álit samgrh. á henni. Ég bendi efh.- og viðskn., þegar hún fær málið til meðferðar, á að til er nefnd sem heitir samgn. og fjallar líka um mál sem snertir þetta. Þetta eru ekki aðskilin mál.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. samgrh. var nýlega farinn úr húsi þegar hv. þm. tók til máls og það hefur því miður ekki náðst til hans enn þá.)