Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:32:32 (119)

1999-10-06 15:32:32# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það voru ýmis atriði í ræðu þingmannsins sem ekki er tóm til að svara hér í andsvari en ég mun gera það í síðari ræðu minni í umræðunni.

Ég vil vekja athygli á umfjöllun hans um það atriði frv. að afnema reglugerðarvald fjmrh. Hann var að reyna að gera það tortryggilegt, þ.e. að nú ætti að fara að snuða á Vegagerðinni. Þetta mál er nú miklu stærra í sniðum en svo að hægt sé að draga það niður á eitthvert slíkt plan. Hérna er verið að fylgja ákvörðunum sem voru teknar um breytingar á stjórnarskránni fyrir fjórum árum. Þannig er þetta mál vaxið.

Reyndar skýtur svo skökku við að hann gagnrýnir það atriði, að ekki sé hægt að hækka bensínið sjálfvirkt, en svo minnir hann á að Samfylkingin hafi nú flutt frv. í vor um að afturkalla hækkun sem var einmitt framkölluð með þeim hætti 1. júní og hefur komið hér til umræðu. Þetta margumrædda frv. Samfylkingarinnar var ekki nema ein lína og hún gekk út á það að afturkalla þá bensíngjaldshækkun sem ég sem fjmrh. hafði beitt mér fyrir á grundvelli þeirrar reglugerðarheimildar sem ég legg nú til að verði afnumin. Slíkar eru nú mótsagnirnar í þessu öllu saman.

En þetta mál með að afnema reglugerðarvald ráðherra er auðvitað stærra í sniðum en svo að hægt sé að draga það inn í einhverja umræðu af þessu hér. Þetta er miklu stærra og almennara mál og á ekki að blanda því inn í karp af þessu tagi eins og hv. þm. gerði.

Að því er varðar áhrif þessara breytinga á vörugjaldi á tekjur yfirstandandi árs þá hef ég svarað því tvisvar hér í dag og í gær. Ég skal gera það í þriðja sinn. Þetta er að finna á bls. 235 í fjárlagafrv. Þar kemur fram hvert áætlað vörugjald á bensíni er á þessu ári miðað við fjárlög og hvert áætlað bensíngjald er á næsta ári miðað við fjárlög. Heildarniðurstaðan er sú að það er lækkun á báðum þessum gjaldstofnum, samtals um 120 millj. kr. Þetta geta allir menn fundið. Þetta er vegna þess hvað bensínverðið var lágt á fyrri hluta ársins.