Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:44:40 (125)

1999-10-06 15:44:40# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja hv. þm. það að ég hef engar áhyggjur út af því, vegna þess að ríkisstjórnin hefur nú þegar sýnt það og sannað að hún leggur mikla áherslu á uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu. Við höfum hins vegar ekki óþrjótandi fjármuni, það liggur fyrir. Og við höfum þess vegna orðið að hægja á á stundum.

[15:45]

Það er rétt sem hv. þm. vakti athygli á að sum ár hefur þurft að draga úr en á öðrum síðan að auka við framkvæmdir í samgöngumálum. Nauðsynlegt er að hv. þm. átti sig á því að tekjur af umferðinni hafa ekki og ganga ekki allar til vegaframkvæmda. Stór partur af tekjum af sölu bensíns og olíu og vegna bifreiðagjalda rennur til ríkissjóðs sem almennar tekjur vegna kostnaðar við heilbrigðiskerfið og skólakerfið o.s.frv. Það eru staðreyndir sem við búum við en auðvitað væri því mjög æskilegt ef allar tekjur af umferðinni gætu runnið til vegaframkvæmda en hlutirnir eru bara ekki svo einfaldir. Auðvitað vilja samgönguráðherrar hafa sem mesta fjármuni en samgönguráðherrar eins og allir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn og eins og þingmenn á Alþingi Íslendinga verða auðvitað að taka þeirri niðurstöðu sem fengin er á Alþingi hvað varðar fjárlög. Það er mergurinn málsins.