Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:46:19 (126)

1999-10-06 15:46:19# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi hér skýrt fram að það vita hv. þm. og vel flestir að auðvitað fara ekki allar tekjur af umferð til uppbyggingar vegamála og samgöngubóta. Ég er sérstaklega að tala um hið sérstaka vörugjald af bensíni, þ.e. bensíngjaldið sjálft, sem er auðvitað ekki ekki meginefni þeirrar umræðu sem við erum hér að fara í gegnum en tengist henni þó óbeint vegna þeirra breytinga sem gerðar eru í 2. gr. frv. Að öðru leyti held ég að lítil ástæða sé til þess að kvitta fyrir seinni ræðu hæstv. samgrh. Hún segir allt sem segja þarf. Ég og aðrir hafa tekið eftir því að í fyrsta frv. nýrrar ríkisstjórnar og nýrra ráðherra er frestað umtalsverðum fyrirhuguðum framkvæmdum í vegamálum og samgöngumálum, málaflokki sem fram undir það síðasta hefur ekki verið talið mjög þensluhvetjandi vegna þess að hann er ekki yfirleitt ekki mjög mannaflafrekur. Þetta lætur hæstv. samgrh. ganga yfir sig við þessa fyrstu fjárlagagerð og var ekki annað á honum að heyra en hann léti sér það vel líka og þetta er þá kannski vísbending um það sem koma skal.