Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 16:02:41 (133)

1999-10-06 16:02:41# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það vill oft verða svo þegar gagnagrunninn ber á góma að mikið upphlaup verður hér í þingsalnum og oft út af takmörkuðu tilefni. Það er ljóst að ef gera á þennan gagnagrunn þá þarf að vinna að því að átta sig á því hvað í grunninn getur farið. Það er óhjákvæmilegt að menn fái aðgang að þessum sjúkraskýrslum og ég vek athygli á því að í leyfi því sem tölvunefnd hefur gefið út er leyfið gefið út til fimm aðila. Þar af eru fjórir aðilar sérfræðingar í heilbrigðismálum og einn tæknimaður.

Þetta leyfi veldur því að menn standa hér upp og halda því fram að öll siðferðislögmál hafi verið brotin. Gera menn sér virkilega ekki grein fyrir því að á hverjum einasta degi eru tæknimenn í flestum stærri sjúkrahússtofnunum landsins að vinna í slíkum skrám, að vinna upp úr þeim ýmis gögn og hanna í vissum tilfellum hugbúnaðarforrit sem geta nýst við þessar skrár? Allir þessir starfsmenn starfa án þess að störf þeirra séu háð eins hörðum skilyrðum og tölvunefnd hefur nú sett þessum fimm einstaklingum sem eiga að vinna þetta verk.

Það er sérkennilegt hve mikið ósamræmi er í málflutningi manna hér í sambandi við gagnagrunnsmálið. Gera menn sér ekki grein fyrir því að það liggur fyrir þingskjal, svar frá heilbrigðisráðuneytinu við fsp. á síðasta ári, þar sem skýrt kemur fram að á hverjum einasta degi streyma upplýsingar úr sjúkraskrám til ákveðinna aðila og ákveðins félags úti í bæ þar sem þær eru notaðar til rannsókna án þess að upplýst samþykki sé fyrir hendi. Þar eru þær keyrðar saman við grunna án þess að upplýst samþykki sé fyrir því og án þess að nöfnin séu afmáð? Hvers vegna í ósköpunum beina menn ekki athygli sinni og hneykslan að þessum málum sem viðgengist hafa áratugum saman?