Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 10:48:40 (144)

1999-10-07 10:48:40# 125. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra segir liggur þetta mál tiltölulega ljóst fyrir og stjórnarandstaðan er ekki í neinum grundvallaratriðum á móti því þó að við hefðum kosið að sjá það með ýmsum öðrum hætti fram sett.

Ég kem hins vegar upp, herra forseti, til þess að inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu til umræðunnar sem átti sér stað í gær varðandi mögulegar breytingar á þeim gjöldum sem lögð eru á eldsneyti og ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddum í gær. Ég vakti þá máls á því að, eins og málum er háttað í dag, er ferns konar gjald og eftir atvikum má segja að það séu fimm tegundir gjalda sem eru á eldsneyti. Ég benti á að víða erlendis væri verið að fara þá leið að varpa fyrir róða gjöldum af þessu tagi og taka í staðinn upp umhverfisgjald. Ég vísaði til þess að á vegum ríkisstjórnarinnar var gerð skýrsla um notkun hagrænna stjórntækja við umhverfisvernd og benti á að undir forustu ríkisstjórnarinnar hefði verið lögð fram hugmynd í formi skýrslu á vegum umhvrn. þar sem einmitt er tekið undir hugmyndir af þessu tagi. Ég veit til þess að um nokkurra ára bil hafa a.m.k. verið vangaveltur um þetta í fjmrn., þar sem sérfræðingar hafa verið af mikilli skynsemd að velta þessum málum fyrir. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, áður en þessari umræðu lýkur: Hver er afstaða hans til þessarar þróunar?