Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 10:53:50 (147)

1999-10-07 10:53:50# 125. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir nú margt. Hann sagði það á sumarþinginu, af því að honum er títt að vitna til þess, að hæstv. fjmrh. væri hér eins og górilluapi og berði sér á brjóst. Svo kom hann næsta dag og sagði: Hæstv. fjmrh. er í því hér að hreyta skít í fólk. Þótti mér nú reyndar vera nokkur mótsögn í því. (ÖS: Það gera górilluapar nú.) Hann er hins vegar vel að sér í Biblíunni og allt gott um það. Hann man kannski eftir því sem hæstv. fyrrv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, sagði einu sinni ,,... ræða þín skal hvorki vera já, já né nei, nei.``

Það gildir um þetta mál með umhverfisskatta að það er að sjálfsögðu ekki hægt að alhæfa um þetta. Ég tók það fram, fjmrn. hefur lagt ákveðna vinnu í þessi mál. Það hafa verið sérfræðingar á okkar vegum að vinna í þessu, m.a. með umhvrn. og reyndar á okkar vegum eingöngu og það er sjálfsagt að hafa augun opin fyrir þessu.

En ég tek ekki undir það að leggja eigi auknar álögur á bensín undir því yfirskini að verið sé að leggja á koltvísýringsskatta. Við erum auðvitað óbeint að því, eins og ég segi, með því að vera með háar álögur á bensín, reyndar mjög miklar. (Gripið fram í: Hvað segir Biblían um það mál?) Það er nú rétt að leita til sérfræðingsins sjálfs um það.

En ég held að það sé ekki hægt að svara þessu neitt skýrar. Ég held að menn verði að hafa augun opin og leggja við hlustir í máli sem þessu. Við áttum ágætt samstarf fyrr á árum um spilliefnagjaldið m.a. Ég er eiginlega alveg viss um það að við erum ekki komnir á leiðarenda í tillögugerð eða í því að huga að slíkum gjaldtökum. En við leysum það náttúrlega ekki í þessari umræðu eða í þessu tiltekna þingmáli.