Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 10:56:15 (148)

1999-10-07 10:56:15# 125. lþ. 5.5 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[10:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytta tilhögun á skattfrelsi tiltekinna norrænna verðlauna. Þetta mál er reyndar skylt því sem fram kom í síðasta þingmáli, að því leyti að það snýst um að afnema reglugerðarheimildir ráðherra til að breyta sköttum og flytja slíkar heimildir til þingsins sjálfs.

Þessi breyting, svo sjálfsögð sem hún kann að hljóma, er afleiðing af stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru 1995, einkanlega 15. og 16. gr. þeirra stjórnskipunarlaga sem breyttu stjórnarskránni þá. Með frv. er lagt til að heimild fjmrh. til þess að undanþiggja tiltekin norræn verðlaun skattskyldu verði afnumin vegna þess að slík heimild er ekki lengur talin eðlileg í ljósi þessara stjórnarskrárbreytinga. Þess í stað er lagt til að talið verði upp tæmandi í lögum hvaða verðlaun eru undanþegin skattskyldu.

Rétt er að taka það fram að í gildandi lögum hafa nokkur slík verðlaun verið talin upp. Síðan hafa í áranna rás bæst við af ýmsum ástæðum ný verðlaun sem ráðherra hefur þá ákveðið með reglugerð að skyldu undanþegin með stoð í þeim lögum sem um þetta hafa gilt og eru frá 1976 og heita Lög um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Síðan hefur verið prjónað við þetta eilítið og síðasta breytingin var sú að ég gaf út reglugerð fyrr á árinu um að umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, sem eru nákvæmlega sambærileg við tónlistarverðlaunin og bókmenntaverðlaunin, verði undanþegin.

Vegna þess hvernig að þessu hefur verið staðið í gegnum tíðina þá hafa þessi mál verið má segja í hálfgerðum graut. Upphaflega voru þarna ákveðnir hluti lögfestir. Síðan hefur verið bætt við með reglugerðum og eins og stundum er gleymast nú kannski ástæðurnar fyrir því að tilteknir hlutir voru teknir inn en aðrir ekki. Því má segja að þetta sé ákveðin lagahreinsun í leiðinni. En grundvallaratriðið er það að verið er að afmarka skýrt í lögum hvað megi vera undanþegið og hvað ekki.

Auðvitað er almenna reglan sú í tekjuskattslögunum að öll verðlaun, innlend jafnt sem erlend, eru skattskyld. En viðhorfið hefur verið það, og undir það er sem sagt tekið hér, að tiltekin heiðursverðlaun sem eru alveg sérstaks eðlis eins og Nóbelsverðlaunin, eins og verðlaun Norðurlandaráðs, er ég hef rakið, og örfá önnur norræn verðlaun séu þess eðlis að það beri að heiðra þá sem þau fá með því að undanþiggja þau skattskyldu. Ekki er hægt að jafna þessum verðlaunum við ýmislegt annað sem uppi er í heimi verðlaunanna ef svo mætti segja. Þess vegna hafa þessar reglur verið þrengdar. Menn geta séð það í fskj. hvernig reglugerðin lítur út í dag og hvað það er þá sem þá er fellt brott og hvað það er sem eftir stendur af þessu.

[11:00]

Herra forseti. Ég legg til að þetta litla mál gangi sína leið til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. og vænti þess að hún verði ekki í vandræðum með að afgreiða það. Ég vek athygli á því að þetta er eitt af mörgum þingmálum sem væntanlega munu koma til þings þar sem byggt er á þeirri meginreglu að aðlaga löggjöfina þeim stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru 1995, þ.e. að flytja reglugerðarvald frá ráðherrum og ganga þannig frá hlutunum að þingið sjálft taki ákvörðun um allar skattalegar ívilnanir eða eftirgjafir sem kunna að vera fyrir hendi, jafnt sem allar breytingar upp og niður á sköttum. Meginhugsunin með stjórnarskrárbreytingunni 1995 var að Alþingi sjálft skyldi hafa þetta vald. Það lýsir sér í ýmsum smærri atriðum eins og þessu máli, þó að það hafi auðvitað upphaflega verið hugsað fyrst og fremst gagnvart hinum stærri skattamálum og því stærra valdaframsali sem áður tíðkaðist þegar Alþingi fól ráðherrum að gera meiri háttar ráðstafanir í skattamálum án þess að koma þar sjálft neitt við sögu.