Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:25:28 (152)

1999-10-07 11:25:28# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:25]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til þess að taka undir það sem stendur í plagginu. Þau tvö atriði sem hæstv. ráðherra var að fara yfir að ættu að breytast með lagasetningunni eru hvor tveggja atriði sem ástæða er til að taka á. Ég vil þess vegna taka undir að það verði gert og ætla ekki að fara yfir það nánar. Ég kem fyrst og fremst upp í þeim tilgangi að spyrja hæstv. ráðherra um sýn hans á framtíðina í þeim atvinnugreinum sem verið er að ræða um og hvort hann ætli að beita sér fyrir því að það verði farið yfir stöðu iðngreina á Íslandi og menn átti sig á því hvaða réttindi meistarar eigi að hafa í þessum iðngreinum og hvaða skyldur þeir eigi líka að hafa.

Sannleikurinn er sá að iðngreinar á Íslandi hafa verið að úreldast á undanförnum árum og eru meistararéttindi í þeim sumum hverjum lítils virði. Menn þurfa að velta því fyrir sér bæði hvaða atvinnugreinar það eru sem þurfa á slíku fyrirkomulagi að halda og hvaða réttindi og skyldur skulu fylgja því. Ég nefni sem dæmi málaraiðn. Hún hefur farið mjög halloka einfaldlega vegna breytinga á tækni. Það er margt annað iðnnám sem hefur úrelst í tímans rás.

Síðan er eitt atriði sem mig langar að koma að og það er hvernig hið opinbera fylgir eftir lögum og reglum af þessu tagi. Það er gert með myndarlegum hætti hvað varðar t.d. húsbyggingar. Þar höfum við meistarakerfi sem virkar. Þar höfum við lög og reglugerðir og við höfum byggingarfulltrúa og aðra sem fylgja því eftir að farið sé að þeim reglum sem þar eru í gildi.

Síðan hefur hið opinbera allt annan hátt á þegar kemur að t.d. skipasmíðum sem ég nefni vegna þess að þar þekki ég til. Þar hefur hin opinbera stofnun sem heitir Siglingastofnun. Sú stofnun fylgist með framkvæmdum á sviði skipasmíða og tekur út verkefni. Í þeirri stofnun gilda þær reglur að það getur hver sem er teiknað skip, það getur hver sem er smíðað skip og það getur hver sem er unnið hvaða verk sem er nánast í þessum skipasmíðum. (Gripið fram í: Þau eru misgóð eftir því hver smíðar þau.) Alveg hárrétt. Tilgangurinn með því að vera með meistararéttindi og/eða þau réttindi og þær skyldur sem verða þannig til er að atvinnugreinarnar þróist á jákvæðan hátt. En þegar hið opinbera gengur á undan eins og í því tilfelli sem ég er að nefna og lætur þessi réttindi vera sem einskis virði, þá er ekki gott í efni, enda fara menn ekki að læra þessar iðngreinar í dag. Menn sækjast ekki eftir þessum réttindum vegna þess að þau eru einskis virði. Það getur hver sem er, t.d. í þessum sal, gengið út og hafið framleiðslu á skipum af hvaða stærð sem er. Hann getur verið meistari fyrir þeim, hann getur lagt fram teikningar, hann getur lagt rafmagnið, sett niður vélarnar. Hann þarf engin réttindi til þess. Ég er ekki viss um að hv. alþm. hafi gert sér grein fyrir því að stofnun á vegum ríkisins eins og Siglingastofnun vinnur þannig. Ég spyr hæstv. iðnrh. hvort hann telji ekki að það þurfi að vera eitthvert samræmi í því sem hið opinbera gerir hvað slíka hluti varðar eins og eftirlit með byggingarframkvæmdum eða framleiðslu skipa eins og ég er hér að nefna sem dæmi.

[11:30]

En það er annað sem fékk mig til að koma í ræðustól og það er að hér stendur í athugasemdum við 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Hér er gert ráð fyrir því að iðnaðarráðherra ákveði í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar. Skv. 5. gr. frumvarpsins fellur við gildistöku laga á grundvelli frumvarpsins úr gildi ákvæði í lögum um framhaldsskóla en menntamálaráðherra hefur á grundvelli þess ákveðið í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar.``

Þetta stendur þarna skýrum stöfum. En þetta er ekki rétt. Menntmrh. hefur ekki gert þetta. Það er engin reglugerð í gildi um löggiltar iðngreinar og hefur ekki verið í gildi síðan lögunum var breytt sem hér er vitnað til. Og það er liðinn bara þó nokkuð langur tími síðan.

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann hafi vitað þetta og hvort það sé vegna þess að menn hafi verið að bíða eftir þeirri breytingu sem nú er verið að kalla fram með þessari lagasmíð sem hér er lögð á borð þingmanna, og það hafi verið þess vegna sem menntmrn. gaf ekki út reglugerð. Það er full ástæða til að velta þessu fyrir sér því að ótal spurningar vakna þegar engin reglugerð er í gildi um löggiltar iðngreinar. Hverjar eru þá löggiltar iðngreinar? Í lögunum stendur að þær skuli ákveðnar með reglugerð. Þess vegna er engin upptalning til í dag um það hvað eru löggiltar iðngreinar.

Það er t.d. hægt að spyrja: Hvert er gildi meistarabréfa sem hafa verið gefin út frá því að lögunum var breytt síðast þar sem engin reglugerð er til? Hvert er gildi meistarabréfa sem gefin voru út áður, á meðan þetta ástand varir? Hver er réttur og hverjar eru skyldur iðnaðarmanna ef á á að herða ef engin reglugerð segir til um það hvað eru löggiltar iðngreinar?

Mér finnst það óvirðing við iðnaðarmenn í landinu og við neytendur sem hafa viðskipti við iðnaðarmenn, að menn skuli hafa látið hjá líða allan þennan tíma frá því að lögunum var breytt árið 1996, ég er að tala um lög nr. 80/1996, að menntmrn. hafi ekki sett reglugerð á grundvelli þeirra laga. Það hafa einungis verið gefnar út tvær reglugerðir á grundvelli laganna um tvær iðngreinar, annars vegar snyrtifræði og hins vegar bifvélavirkjun, ef ég man rétt. Ég vil átelja harðlega hvernig að þessu hefur verið staðið frá hendi menntmrn. og spyrja hæstv. iðnrn. hvort hann hafi vitað af þessu og hvort þetta hafi verið af þeirri ástæðu að til hafi staðið að breyta lögunum. Það er engin afsökun fyrir því að ekki skuli hafa verið sett reglugerð. Það hefði auðvitað átt að setja reglugerð með svipuðum hætti og var í gildi fyrir þann tíma sem lögunum var breytt og láta þá reglugerð standa þangað til nýjar reglur tækju við, í staðinn fyrir að búa til þetta óvissutímabil sem staðið hefur yfir.

Ég hafði ekki séð þetta frv. til laga á þskj. 22, þegar ég lagði fram fyrirspurn á þskj. 52, enda komu öll mál hér inn í einni hrúgu, en hún hefur líkast til komið inn sama dag og frv. Þess vegna kem ég hér í ræðustól og ber fram athugasemdir mínar. Ég vonast hins vegar til þess að hæstv. iðnrh. og hæstv. menntmrh. muni í sameiningu taka til við að skoða málefni iðngreina á Íslandi með það fyrir augum að bæði menntun iðnaðarmanna og aðstæður þeirra, skyldur og réttindi verði tekin til athugunar í því skyni að íslenskur iðnaður og íslenskir iðnaðarmenn fái jákvæða hvatningu frá hinu opinbera sem fólgin er í þeim lagaramma og eftirlitskerfi sem hið opinbera setur fyrir iðngreinar. Það er sannarlega kominn tími til að þetta verði gert.

Ég vil eindregið hvetja til þess og er tilbúinn að leggja mitt af mörkum við það ef við fáum tækifæri til þess á hv. Alþingi.