Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:37:31 (154)

1999-10-07 11:37:31# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:37]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. iðnrh. hefur góðan hug í málinu og ætla ekkert að hafa neinar athugasemdir við það, en hitt vil ég segja að sú reglugerð sem féll úr gildi þegar lögin voru sett síðast getur ekki haft neitt gildi í dag og hefur ekki haft gildi síðan lögunum var breytt 1996. Og það er bara hreinlega, að mér finnst, mikil skömm að því að menntmrn. skuli ekki hafa sinnt skyldu sinni vegna þess að lögin sem þarna eru á bak við segja þetta skýrt og skorinort, að ákveða skuli hverjar séu löggiltar iðngreinar. Þær eru hvergi taldar upp annars staðar en í reglugerð. Og sé reglugerð ekki til staðar þá get ég ekki séð hvaða lagalega stöðu menn hafa sem eru í þessum iðngreinum og menn sem þurfa að sækja mál á hendur þeim sem þeir eiga jafnvel einhverjar sakir við, hafa unnið fyrir þá verkefni eða annað slíkt. Þetta veldur óvissu. Ég held því alveg hiklaust fram að endurútgefa þurfi meistarabréf og annað slíkt sem hefur verið gefið út á því tímabili sem engin reglugerð hefur verið í gildi. Það liggur í augum uppi að það hlýtur að þurfa að liggja fyrir, eins og lögin segja, hvað séu löggiltar iðngreinar. Ef sú reglugerð er ekki til staðar, þá eru þau lagalegu skilyrði einfaldlega ekki uppfyllt sem þarf að uppfylla, t.d. til að gefa út meistarabréf. En menn hafa haldið áfram að gera það þó að þeir hafi ekki haft neina reglugerð til að styðjast við.