Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:39:31 (155)

1999-10-07 11:39:31# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að auðvitað er miður að þessi reglugerð hafi ekki verið til staðar. Nú skal ég bara viðurkenna að ég þekki ekki málið, það snýr ekki beint að iðnrn. hvað þetta snertir. Ég stóð hins vegar í þeirri meiningu að þetta væri tiltölulega einfalt og skýrt.

Ég held að óvissan sé ekki eins mikil og hv. þm. vill láta í veðri vaka vegna þess að auðvitað fengu menn réttindi sín á grundvelli reglugerðar sem var í gildi á grundvelli gömlu laganna. Það kann að vera einhver óvissa, ég ætla ekkert að draga úr því, um þá sem hafa fengið útgefin starfsréttindi eftir á, hafi ekki verið reglugerð í gildi, og kannski ekki síst gæti óvissan verið til staðar ef einhverjar aðrar og auknar kröfur hafa verið gerðar í lagabreytingunum frá 1996.

En ég held að ekki sé ástæða til að gera stórmál úr þessu. Aðalatriðið er að skynsamlegt væri að koma þessu í þann farveg sem ég sé að við erum báðir sammála um að gera, og að tryggja þá um leið öruggan grundvöll fyrir slíkum starfsréttindum. Ég held það gæti hálft í hvoru verið slæmt gagnvart þeim sem hafa fengið slík réttindi og hafa auðvitað fengið þau í góðri trú á grundvelli laga, ef menn færu að skapa einhverja óvissu um það, nema auðvitað að svo væri að lögin hefðu gert einhverjar stórkostlegar viðbótarkröfur og þær kröfur hefðu ekki verið uppfylltar, sem ég held að sé ekki.