Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:42:53 (157)

1999-10-07 11:42:53# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í þessu frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum er margt skynsamlegt, en það vekur jafnframt upp spurningar hvort iðnrn. hefur tekið fyrir löggildingu starfa almennt. Og ég beini þeirri spurningu til hæstv. iðnrh. hvort þar á bæ sé verið að ræða almennt um löggildingu starfa.

Í sambandi við löggildingu starfa eru nefnilega tvö sjónarmið uppi. Í fyrsta lagi er það krafan um þekkingu og færni. Ég væri t.d. ekkert voðalega ánægður með að hver sem er gæti kallað sig lækni og farið að lækna mig. Ég geri kröfu til þess að menn hafi lokið ákveðnu námi og hafi ákveðna færni og þekkingu.

Hins vegar er svo sjónarmiðið um frelsi, samkeppni og sveigjanleika sem löggilding starfa greinilega rekst á. Til dæmis er löggilding á starfi sem rafvirki greinilega mikill hemill á samkeppni í þeirri grein. Þar inn koma náttúrlega öryggissjónarmið og margt fleira, en greinilegt er að það að hver og einn geti ekki starfað sem rafvirki, meira að segja mega menn ekki einu sinni gera við heima hjá sér, kallar á mikla takmörkun á samkeppni og kallar á ákveðna einokun. Þetta er hemjandi og letjandi fyrir atvinnulífið. Eftir því sem við erum með meiri takmarkanir og meiri löggildingu starfa, þeim mun þunglamalegra verður atvinnulífið og minni samkeppni. Það er því mjög margt sem þarf að athuga í þessu sambandi.

Svo er annað sem mér finnst ekki hafa komið fram. Meistarabréf eru veitt ævilangt. Hvernig er með meistara í rafvirkjun, sem var meistari í veikstraumsrafvirkjun en lærði fyrir daga tölvunnar? Hvernig stendur sá maður í dag? Hver er menntun hans, reynsla og færni?

[11:45]

Auðvitað eru flestir meistarar og reyndar flest fólk þannig að það heldur áfram að mennta sig og fylgjast með. En það er ekkert gefið. Það er ekkert sem tryggir neytandann fyrir því að meistari í rafvirkjun, t.d. á veikstraumssviði fari ekki að gera við tölvur og kunni ekki til verka.

Ég held að það mætti ræða það líka og ég beini því til hæstv. iðnrh. hvort það þurfi ekki að taka upp símenntun og að meistarabréfin verði aðeins veitt til fimm ára eða eitthvað slíkt. Þetta á ekki síður við um lækna t.d., sem reyndar heyra ekki undir iðnrn., að þar er líka löggilding. Ég er ekki viss um að við viljum láta lækni, sem lærði fyrir 30 árum og hefur ekkert lært síðan, krukka eitthvað í okkur. Þannig að það eru ýmis sjónarmið í þessu sem mér finnst að þurfi að athuga og alveg sérstaklega nú á dögum. Þegar hraði breytinganna er jafnmikill og raun ber vitni, hraðinn í upplýsingatækni og breyting á öllum reglum og þekkingu, þá finnst mér þurfa að ræða um þessa löggildingu alveg sérstaklega. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. iðnrh. hvort ráðuneytið sé að ræða um þessi tvö sjónarmið varðandi löggildingu starfa og þá líka hvort menn hafi rætt um að taka upp löggildingu í takmarkaðan tíma.