Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:47:05 (158)

1999-10-07 11:47:05# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það komu hér fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal ágætis ábendingar sem snúa að starfsréttindum og hvað menn ættu að hafa í huga varðandi slíkar löggildingar. Ég held að staðreyndin sé sú, því miður kannski, að mikið af þeim starfsréttindum sem verið er að gefa út standa á mjög gömlum merg --- þ.e. lagagrundvöllurinn, forsendurnar sem starfsréttindin eru gefin út samkvæmt, er mjög gamall.

Hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni komu áðan ágætis ábendingar sem snúa að breytingu á iðnaðarlögunum og endurskoðun þeirra. Það er nú svo að sérstök nefnd hefur verið í gangi við að endurskoða þau. Henni hefur lítið miðað þannig að það þarf að endurskipuleggja og endurskipa hana. Ég mun gera það á næstunni, ekki síst í ljósi þess að starfsréttindin munu núna flytjast yfir til okkar. Svo er hitt að flest þau starfsréttindi sem iðnrn. gefur út byggja á lögum nr. 8 frá 1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Þrátt fyrir að ekki sé nú lengri tími en það frá því að þau lög voru sett hér á þingi þá held ég að inn í þau vanti mikið af því sem hv. þm. Pétur Blöndal benti hér á áðan að rétt væri að taka tillit til við slíka löggildingu og þarf af leiðandi um leið við útgáfu á starfsréttindum.

Þetta mun ég taka til skoðunar og þakka ábendingarnar.