Öryggi greiðslufyrirmæla

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:16:12 (163)

1999-10-07 12:16:12# 125. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var einkum þrennt sem hv. þm. lagði áherslu á í ræðu sinni hér áðan. Í fyrsta lagi til hvaða aðila þetta mundi ná. Varðandi það er alveg skýrt að þetta nær ekki til einstaklinga heldur aðeins til lögaðila og bendi ég á 3. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn geri tillögur um hverjir geti þarna átt aðild.

Í öðru lagi, varðandi það sem snýr að lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, þá lagði ég áherslu á það í ræðu minni áðan að markmiðið með frv. væri að einangra uppgjör sem fram fara í greiðslukerfunum fyrir fjármagnsmarkaðinn frá almennum riftunarákvæðum þessara laga. Ég ítrekaði síðan að það yrði að vera alveg skýrt að þá yrði greiðslan að vera komin inn í greiðslukerfið. Þannig má segja að sé greiðsla komin inn í greiðslukerfið áður en sá sem innti hana af hendi verður gjaldþrota, þá er skýrt að ekki er hægt að nota riftunarákvæði gjaldþrotaskiptalaganna til þess að fara þar inn. Þar af leiðandi ganga þessi lög lengra hvað þetta snertir.

Þriðja atriðið sem hv. þm. minntist á og full ástæða er til að gefa gaum --- ég get tekið undir margt af því sem hann sagði og þann skamma tíma sem við hv. þm. sátum í efh.- og viðskn. kom nákvæmlega þetta ákvæði oft upp --- var hvort hugsanlega ætti að dæma menn í atvinnurekstrarbann eins og það var kallað. Ég flutti m.a. frv. um slíkt í þinginu þegar ég sat hér fyrir nokkrum árum síðan og mér finnst það nokkuð sem menn eigi að horfa á og skoða en ég veit ekki til þess að neinar fyrirætlanir séu um að taka lögin um gjaldþrotaskipti til sérstakrar skoðunar.