Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:35:04 (170)

1999-10-07 12:35:04# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að málið sé skoðað alveg ofan í kjölinn í efh.- og viðskn. Ég fagna því ef það verður gert og ef einhver misskilningur er þarna á ferðinni þá verði hann leiðréttur á hvorn veginn sem hann er.

Ég heyri að hv. þm. skilur þetta á nákvæmlega sama hátt og ég, þ.e. ekki er verið að tryggja áhættuna sem menn taka af því að fjárfesta í hlutabréfum. Það er fyrst og fremst verið að tryggja það að ef viðkomandi einstaklingar geyma verðmæti og hafa einhver viðskipti við verðbréfafyrirtæki að þá séu þeir með tryggingar sem standi þar að baki, eins og þeir sem væru með innstæður sínar í bönkum.

Ég held því að það sé enginn misskilningur milli mín og hv. þm. í þessum efnum og auðvitað er alveg hárrétt að láta skoða málið eins og framast er kostur í efh.- og viðskn.