Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:59:19 (175)

1999-10-07 12:59:19# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og þau skýra málið að hluta til. Við deilum auðvitað skoðunum í þeim efnum að vitaskuld vonum við það besta. En frv. er einmitt sett fram til þess að verða viðbúinn hinu versta og hugsanlegum erfiðleikum.

Mér þótti raunar ástæða til þess fyrst og síðast að vekja athygli á því að þó að menn hafi búið við tiltölulega kyrr kjör og mikið öryggi í þessum efnum og að fólk gæti treyst því 100% að þeir peningar sem færu inn í banka kæmu þaðan út þegar fólk vildi losa þá samkvæmt þeim skilmálum sem það hefði gert við þá viðskiptastofnun, þá er ekkert sjálfgefið í þeim efnum.

[13:00]

Ég rifja það upp, og það er hyggilegt fyrir okkur að gera það, að í hinu stóra landi, Bandaríkjunum, riðaði heil keðja til falls ekki fyrir mörgum árum og ríkissjóður Bandaríkjanna, í þessu kapítalíska landi, hljóp undir bagga. Ég held að líka sé rétt að velta þeirri pólitísku spurningu upp þegar þessu máli vindur fram, þó ekki sé ástæða til þess að gera það mjög nákvæmlega núna, hvernig við ætlum að horfa pólitískt á þessa hugsanlegu sýn þegar allt bankakerfið er meira og minna orðið einkavætt og ríkið hefur sleppt höndum af því og þar með ábyrgð, a.m.k. að nafninu til. Því verður það mjög vakandi spurning sem ég mun halda á lofti í umræðunni, a.m.k. fyrir mína parta: Hvert verður hlutverk ríkissjóðs í hinum stóru viðskiptabönkum þegar ríkissjóður hefur selt alla sína hluti þar? Verður það eingöngu fólgið í þeirri ábyrgð sem við erum að tala um hér eða verður siðferðileg og pólitísk ábyrgð enn til staðar eins og menn hafa gengið að sem vísu um langt árabil og raunar alla tíð? En það er seinni tíma mál.