Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:57:00 (185)

1999-10-07 13:57:00# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Kveðið var á um það í lögum fyrr á þessu ári að þessi nefnd skyldi sett á laggirnar og hvert hlutverk hennar væri. Einnig var kveðið á um það að hæstv. ráðherra skyldi skipa nefndina og miða við að það yrði gert á breiðum grundvelli.

Ég fæ ekki annað séð en hæstv. ráðherra hafi framkvæmt þetta lagaákvæði nákvæmlega eins og til stóð af þáverandi meiri hluta sjútvn. Í nefndinni er hæfilegur fjöldi manna til þess að hún sé starfhæf. Í henni eru fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, hún er því á breiðum grundvelli eins og til stóð. Það er framför frá því sem var, t.d. þegar Alþfl. kom síðast að þessu máli í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. því þá voru það einungis fulltrúar stjórnarliðsins sem tóku þátt í nefndarstarfi á þeim tíma. Ég bið hv. þm. sem gagnrýna þetta úr röðum Samf. að gera þá grein fyrir því hvers vegna ekki var rúm fyrir stjórnarandstöðuna á þeim tíma þegar þeir sátu í ríkisstjórnarstólunum.

Það kemur einnig fram að stjórnarandstaðan hafði völ á því að tefla fram af sinni hálfu tveimur mönnum. Hún kom sér ekki saman um það. Það virðist vera svo að í stjórnarandstöðunni rúmist mörg sjónarmið í þessu máli þannig að þau komi sér ekki saman um að tefla fram af sinni hálfu tveimur fulltrúum fyrir alla stjórnarandstöðuna. Þvílíkt sundurlyndi. Meira að segja kemur hér fram fulltrúi Samf. og gerir kröfu til þess að hún eigi báða fulltrúa stjórnarandstöðunnar eins og hann gat um í krafti þingstyrks síns. Hvernig rímar þetta, herra forseti, þegar einn partur stjórnarandstöðunnar heimtar báða fulltrúa stjórnarandstöðunnar og síðan kemur sá sami partur og aðrir armar þessa sundurleita hóps og gera kröfu um fleiri fulltrúa af því að þeir geta ekki komið sér saman um meginsjónarmið í þessu mikla máli? Hvernig ætlar slík stjórnarandstaða að fara að stjórna landinu í framtíðinni, ef hún einhvern tímann fengi tækifæri til þess?