Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:59:15 (186)

1999-10-07 13:59:15# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er annað af tveimur málum sem ríkisstjórnin hefur talað fjálglega um að þurfi að nást um víðtæk sátt. Hitt er margumtalað hálendismál.

Þetta mál hefur vissulega pólitíska vigt eins og hæstv. sjútvrh. nefnir sem eitt af lykilatriðum fyrir skipun nefndarinnar í sumar. Það var öllum ljóst á sumarþinginu sem við sátum í júní að vægi málsins var afskaplega mikið og ráðherra sjálfur veit það að hann var ítrekað spurður í sumar hvort ekki ætti að fara að skipa þessa endurskoðunarnefnd, setja hana á laggirnar. Við vitum öll hve lappir voru dregnar í því máli og það var ekki til fyrirmyndar.

[14:00]

Þegar síðan er ljóst hvernig á að skipa nefndina verður uppi fótur og fit í samfélaginu vegna þess að þjóðin er sammála um að vægi málsins sé mikið og um það þurfi að skapast víðtæk sátt.

Frjálslyndi flokkurinn hefur tvo lýðræðislega kjörna fulltrúa í löggjafarsamkomunni. Á bak við þessa menn standa tæplega sjö þúsund kjósendur. Það er verið að gera lítið úr kjósendum þessara hv. þm. með því að skipa nefndina eins og hún er skipuð. Það veit hæstv. sjútvrh. ákaflega vel.

Ég spyr hæstv. ráðherrann: Hverju hefði það breytt um störf nefndarinnar ef rödd Frjálslynda flokksins hefði fengið að hljóma inni í nefndinni sem allir vita að er skipuð að meiri hluta stjórnarliðum?

Ég segi, lýðræðið er litróf þjóðar okkar. Sama á að gilda í þessum sal, við eigum að spegla litróf þjóðarinnar. Þessi salur og málflutningur sem hér fer fram er fátækur ef hér vantar einn litinn. Sú nefnd sem er til umfjöllunar er fátækari en hún gæti verið ef litinn sem Frjálslyndi flokkurinn stendur fyrir vantar.

Ég óska eftir því við hæstv. sjútvrh. að hann endurskoði þessa skipan.