Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:03:40 (188)

1999-10-07 14:03:40# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er að vísu ekki rétt að Frjálslyndi flokkurinn sé til þess einvörðungu stofnaður að vinna gegn núverandi skipan fiskveiðistjórnarmála. Hann er ekkert síður til þess stofnaður að berjast gegn þeirri nýfrjálshyggju sem Sjálfstfl. gengur undir. Það er undravert hversu skjótlega hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hefur tekist að tileinka sér framsóknarhugarfar í sínu nýja starfi. Hann talaði eins og maður er gamalvanur viðhorfum þess flokks.

Ekkert var talað um að við ættum kröfu á einu eða neinu inn í þessa nefnd. Okkur var enginn kostur gefinn á að eiga þar fulltrúa. Bréf var skrifað til hinna tveggja flokkanna og beðið um tilnefningu og við vorum þar hvergi nærri. Það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson benti á var að ef menn vildu breyta yfir í þingfylgi væri þess einu sinni ekki gætt í skipan nefndarinnar.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var að hefja umræður um hvert væri erindi nefndarinnar. Það eina veganesti sem hún hefur fengið frá hæstv. sjútvrh. er að fiskveiðistjórnarkerfinu yrði ekki breytt í grundvallaratriðum. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gekk á fund hæstv. sjútvrh. og fitjaði upp á því við hann hvort þeir vildu ekki hafa nefndina níu manna og þeir hefðu þá sex og svo þrír aðrir, einn frá hverjum stjórnarandstöðuflokki. Það var ekki hægt af því að nefndin yrði óstarfhæf vegna þess að hún yrði svo fjölmenn. Sama sagði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson.

Hann stjórnar nú sjálfur sjútvn. í þingi sem níu manna og aðalnefnd þingsins er nú reyndar ellefu manna, ef út í það er farið. Þetta rekst því hvað á annars horn.

Það er kannski réttast, herra forseti, og ég lýk máli mínu með því, og eðlilegast af því sem Frjálslyndi flokkurinn hefur mjög mikla sérstöðu í sjávarútvegsmálum, að hann sé utan við nefndina og geti án tillits til hennar og hennar starfa búið út málafylgju sína.