Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:55:44 (204)

1999-10-07 14:55:44# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er á mjög svipuðu máli og hv. 1. flm. þessarar þáltill. Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að láta fara fram lögformlegt umhverfismat og ég er líka þeirrar skoðunar að við sem viljum gera málamiðlun með því verðum líka að sætta okkur við þá niðurstöðu. Það þýðir að ef slíkt mat verður látið fara fram og niðurstaðan væri sú í lok þess ferils að hæstv. umhvrh. kæmist að þeirri niðurstöðu að láta ætti þessa framkvæmd fara fram, þá yrði ég að sætta mig við það.

Mig langar hins vegar, herra forseti, að beina fyrirspurn til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Við vitum að þessi umræða hefur staðið býsna lengi og við vitum afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í málinu og ég velti því fyrir mér hvort það skipti miklu máli að vera að leggja fram till. til þál. um þetta. Er ekki rétt að vilji þingsins endanlegur í þessu máli komi fram, ekki með samþykkt þáltill. frá hv. flm. eða hæstv. iðn.- og viðskrh. Telur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ekki hreinlegast að ganga til verks í þessu máli með því að leggja fram brtt. við gildandi lög um Fljótsdalsvirkjun?