Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:58:54 (206)

1999-10-07 14:58:54# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki legið alveg ljóst fyrir hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum til að slík framkvæmd fari í umhverfismat. Við hæstv. umhvrh. deildum um það á sumarþinginu. Ég hef náttúrlega reynt að nota tímann í sumar til að kynna mér það betur og það er niðurstaða mín, m.a. eftir umræður við lögfræðinga þingsins, að til þess að hægt sé að láta framkvæmdina fara í umhverfismat, þá sé hreinlegast og öll tvímæli af tekin ef lögunum um Fljótsdalsvirkjun, hinum upphaflegu, verði breytt þannig að við þau verði hnýtt ákvæði um að áður en ráðist verði í endanlega framkvæmd verði hún sett í umhverfismat. Þess vegna er ég að velta þessu hér upp við hv. þm. þ.e. hvort ekki sé miklu hreinlegra fyrir okkur sem erum andstæðingar þessarar framkvæmdar með núverandi formi að við göngum hreint til verks og leggjum fram skýra tillögu um það eins og ég er að velta fyrir mér.