Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:21:03 (216)

1999-10-07 15:21:03# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það hefur margoft verið bent á að lagagrunnur fyrir Fljótsdalsvirkjun sé öruggur og ljós með heimildarlögunum frá 1981, með virkjunarleyfinu 1991 og síðan undanþágu frá mati á umhverfisáhrifum 1993.

Hér hefur verið gert að umræðuefni hvernig það undanþáguákvæði var fengið. Allir þeir sem hafa kynnt sér það mál sjá að það er rétt sem hv. þm. Katrín Fjeldsted sagði áðan að þar er hvergi minnst á Fljótsdalsvirkjun þó ég dragi um leið ekki í efa að öllum sem í þessum sal sátu hafi verið ljóst um hvað var verið að greiða atkvæði. Látum svo standa. Fljótsdalsvirkjun kom með í þessu togi og er um borð hjá framkvæmdaaðilum.

En það er annað sem hefur breyst frá 1993. Það er viðhorf íslensku þjóðarinnar, viðhorf sérfræðinga, viðhorf alþingismanna. Allt hefur þetta breyst. Það sýnir e.t.v. skýrast þá breytingu að það fólk sem sat í umhvn. og lagði fram hina dapurlegu undanþágu skuli nú einmitt standa í broddi fylkingar um að þessi virkjun fari í mat á umhverfisáhrifum. Öllum má ljóst vera hverjir voru í þeirri nefnd og er hægt að sjá það í þingskjölum, en það eru einmitt þeir sem hvað harðast hafa beitt sér gegn Fljótsdalsvirkjun án lögformlegs umhverfismats. (Gripið fram í: Var það Tómas Ingi og Gunnlaugur ...) Hv. þm. geta kynnt sér það í skjölum hverjir sátu í nefndinni.

Aðalatriðin eru þau að viðhorfin eru gjörbreytt, gjörbreyttar kröfur. Nú hljóta allir að vilja fá þessa umfangsmiklu framkvæmd í mat á umhverfisáhrifum vegna hins breytta tíðaranda og vilja að Landsvirkjun semji sig að því framkvæmda- og starfsumhverfi sem allir þurfa að sætta sig við í þjóðfélaginu.

Við vitum að meiri hluti þjóðarinnar er andvígur virkjuninni sem slíkri. E.t.v. hefðu einhverjir viljað láta bardagann og átökin um virkjunina fara fram við þá víglínu hér í dag. Þess vegna hef ég alltaf litið á það sem skynsamlegt sáttatilboð að fram færi mat á umhverfisáhrifum.

Með mati á umhverfisáhrifum ná menn fjölmörgu. Mat á umhverfisáhrifum felst ekki eingöngu í kæruferli sem almenningur eða einhverjir sértrúarhópar í umhverfismálum hafa til þess að tefja málið. Mat á umhverfisáhrifum er málefnaleg meðferð innan stjórnsýslunnar til þess að takast á við flókin viðfangsefni. Þar á almenningur aðgang og sérfræðingar. Þar eru lögformlegar stofnanir sem eiga að taka á málinu. Þar er líka ætlast til að komi samanburður á þeim virkjunarkostum og framkvæmdakostum sem fyrir hendi eru en ekki eingöngu skoðaður einn kostur eins og gert er með því að skoða eingöngu framkvæmdaáform Landsvirkjunar. Ég tel þess vegna að sú tillaga sem hér kemur fram sé þörf, hún komi að kjarna málsins, kjarna þeirrar umræðu um umhverfismál og náttúruverndarmál sem hér hefur verið. Hún kemur að kjarna þeirrar sáttar sem boðin er fram til þess að þetta mál fái farsælan framgang meðal þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Þetta mun vera í þriðja skipti sem þessi tillaga er flutt. Jafnframt því hefur farið fram mjög ítarleg umræða í þjóðfélaginu. Ég tel það vera skyldu formanns umhvn. að beita sér fyrir því að þessi tillaga fái málefnalega umræðu og framgang í nefndinni og að hver maður fái þar möguleika á að láta sínar skoðanir í ljósi þó að þær falli ekki allar í einn farveg.