Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:26:46 (217)

1999-10-07 15:26:46# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni umhvn., fyrir góða ræðu. Hann liggur ekkert á skoðunum sínum frekar en áður þegar rætt er um þessi mál. Hin efnislega niðurstaða hv. þm. var þessi: Tilagan sem hér um ræðir er þörf. Tillagan sem hér um ræðir kemur að kjarna málsins. Við vitum hvernig málum er háttað í umhvn. Miðað við það sem hér hefur komið fram í dag er enn til staðar sá meiri hluti sem fylgdi þessari tillögu á sumarþinginu. Þess vegna langar mig til þess að inna hv. formann eftir því hvort hann muni ekki, að lokinni þeirri málefnalegu umfjöllun sem hann talar um að nauðsynleg sé og hann muni beita sér fyrir að verði innan nefndarinnar, stuðla að því að tillagan verði afgreidd hið fyrsta til þingsins aftur til þess að hægt verði að fá skorið úr um vilja þingsins gagnvart þessari tilteknu tillögu.