Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:33:30 (221)

1999-10-07 15:33:30# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er mjög stórt og viðkvæmt mál á ferðinni eins og komið hefur fram. Þetta er mál sem snertir umhverfismál, vinnubrögð og byggðamál að margra mati. Þetta er till. til þál. um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Fyrir tíu árum fékk Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun og auglýstu framkvæmdaaðilar hinnar ráðgerðu virkjunar eftir athugasemdum og leituðu þá eftir þeim. Í þeim deilum sem uppi eru í dag vegna virkjunarinnar vitna virkjunaraðilar til þess að engar athugasemdir hafi þá borist vegna uppistöðulónanna á Eyjabökkum. Eingöngu hafi komið fram athugasemdir vegna opinna aðveituskurða sem þá voru fyrirhugaðir ásamt nokkrum smávægilegum athugasemdum eins og það er orðað.

Fyrir átta árum töldu menn að virkjunin væri frágengin og að enga þýðingu hefði að koma með athugasemdir eða mótmæli þó auglýst væri eftir athugasemdum samhliða tilkynningu um að undirbúningsframkvæmdir væru að hefjast.

Sú mótmælaalda sem risið hefur á undanförnum mánuðum gegn fyrirhugaðri virkjun segir okkur að fjöldi fólks er nú meðvitaðra um náttúruvernd og stöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum. Mótmælin hafa fyrst og fremst komið fram í réttlátri reiði út í stjórnvöld fyrir að viðhafa ekki nútímaleg vinnubrögð með því að láta fara fram lögformlegt umhverfismat á svo umdeildum framkvæmdum.

Fegurð virkjanasvæðanna er ekki ein og sér rök fyrir verndun þeirra heldur náttúrufarsleg sérstaða. Landsvirkjun hefur unnið að grunnrannsóknum og úttekt á virkjanasvæðunum norðan Vatnajökuls og liggja nú þegar niðurstöður fyrir á mörgum þáttum. Vísað er til þessara rannsókna þegar því er haldið fram að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar, Landsvirkjun sjái um það. Ég er ekki að gera lítið úr rannsóknum eða úttekt Landsvirkjunar með því að fullyrða að það muni aldrei nást sátt um Fljótsdalsvirkjun án þess að fram fari lögformlegt umhverfismat. Ástæðan er einfaldlega sú að ekki er hægt að koma með athugasemdir eða mótmæli við hönnun virkjunarinnar ásamt uppistöðulónum nema með lögformlegu umhverfismati. Mat á umhverfisáhrifum, eins og við höfum ákveðið það með lögum, er eina tækið sem við höfum til að ná fram sáttum um stórframkvæmdir. Allt tal um að ná sátt um fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun án lögformlegs umhverfismats er blekking sem hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, skýtur sér á bak við.

Óttast iðnrh. e.t.v. að athugasemdir við Fljótsdalsvirkjun verði svo miklar að umtalsverðar breytingar verði að gera á uppistöðulónunum eða jafnvel að hætta verði við svo stóra virkjun? Eða óttast hann að þurfa að færa til peninga í ríkisbókhaldinu vegna rannsóknarvinnunnar sem þegar hefur verið unnin af Landsvirkjun eða hefði ekki Orkustofnun átt að vinna hluta þessarar vinnu? Því hefur verið haldið fram að það gæti kostað okkur um 3 milljarða kr. úr ríkissjóði í skaðabætur til Landsvirkjunar ef við hættum við allar framkvæmdir, en þessar rannsóknir sem þegar hafa farið fram eru rannsóknir sem á að gera og við búum að. Allt tal um að mat á umhverfisáhrifum muni seinka framkvæmdum við virkjun og álver við Reyðarfjörð er fyrirsláttur því að um væri að ræða nokkra mánuði.

Landsvirkjun hefur óumdeilanlega virkjunarleyfi til Fljótsdalsvirkjunar þó að líta megi til þess hvort eðlilegt sé að útgefið virkjunarleyfi geti staðið í ótilgreind ár án þess að framkvæmdir hefjist. Deilan stendur um það að framkvæmdaaðilar fari eftir núgildandi lögum, vinni samkvæmt nútímalegum vinnubrögðum.

Eins og lýst var í greinargerð flutningsmanns er mjög umdeilanlegt hvort Fljótsdalsvirkjun eigi að falla undir undanþágu ákvæðis um mat á umhverfisáhrifum virkjana þar sem undanþáguákvæðið var sett inn samkvæmt beiðni Skipulags ríkisins vegna þeirra virkjana sem þá þegar voru komnar á framkvæmdastig, enda er eins og komið hefur fram hvergi getið Fljótsdalsvirkjunar í umsögnum sem lúta að undanþágunni.

Þegar undanþágan eða lögin voru samþykkt árið 1993, þá treystu menn á að skipulags- og byggingarlögin yrðu endurskoðuð og þar með þetta ákvæði. Ef það hefði verið gert væru ekki uppi deilur um það í dag hvort Fljótsdalsvirkjun ætti að falla undir þetta ákvæði eða ekki. Hvað menn hugsuðu hér í sætum sínum og töldu að þetta ákvæði næði yfir verður hver að hafa fyrir sig. Það er ekki pólitísk flétta að halda því fram að þarna hafi aldrei verið átt við Fljótsdalsvirkjun, heldur er það staðreynd að Fljótsdalsvirkjun var aldrei nefnd. Því tel ég að orð hæstv. forsrh. í ræðu hans hafi verið ómakleg. Þeir sem vilja að svo umdeild framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum telja að í dag sé þetta hluti af vinnuferli sem tilheyrir nútímavinnubrögðum.

Til hvers voru svo lögin sett? Var það til þess að tefja framkvæmdir eins og heyrst hefur í dag, að lög um mat á umhverfisáhrifum séu eingöngu til þess að tefja framkvæmdir, eða var það til þess að geta unnið með eðlilegum hætti og viðhafa eins vönduð vinnubrögð og við þekkjum til í dag? Það á ekki bara við um virkjunarframkvæmdir, þetta á við um allar stórar framkvæmdir, að við skoðum málin frá öllum hliðum. Þeir sem leggja vegi, þeir sem eru að virkja horfa á framkvæmdina út frá sínu sjónarmiði, bændur, íbúar, félagasamtök og allir aðrir sem eiga þar hlut að máli, sveitarstjórnarmenn sem aðrir, líta á framkvæmdirnar út frá sínu sjónarmiði og öll sjónarmið eiga rétt á sér og eiga að koma fram. Það er ekki hægt að nálgast þessar athugasemdir nema farið sé eftir lögunum um mat á umhverfisáhrifum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson leitaði eftir skoðunum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Vissulega munum við verða að sætta okkur við niðurstöður á lögformlegum vinnubrögðum, ef svo vel tekst til að mönnum auðnist að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat. Við munum vissulega lúta því. En hvort maður sættir sig við það er svo annað mál. Við höfum uppi aðrar hugmyndir. Við erum búin að leggja fram þáltill. um að stofnaður verði Snæfellsþjóðgarður og landsvæðið nýtt til þess.