Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:44:50 (224)

1999-10-07 15:44:50# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Tillaga sú sem hér er til umræðu og verið er að ræða hér í þriðja sinn, ef ég man rétt, er að mínu mati --- þó að hún sé kannski ekki tímasóun --- ekki nákvæmlega rétt fram sett í þeirri röð sem þyrfti að vera ef reyna ætti að koma í veg fyrir virkjun Jökulsár í Fljótsdal og Eyjabakkar yrðu settir undir vatn. Ég held að það sé ekkert sem geti komið í veg fyrir þessi virkjun annað en að undanþáguákvæði í lögum um umhverfismat verði afnumið. Það er það fyrsta sem þarf að gera ef menn á annað borð vilja breyta því ferli sem er í gangi.

[15:45]

Einnig þyrfti að breyta lögum um raforkuvirki sem heimila þessa virkjun þannig að lögformlega hef ég ekki getað séð neitt því til fyrirstöðu af hálfu stjórnvalda að fara með framkvæmdina eins og áætlað er í dag. Menn getur að sjálfsögðu greint á um hvort þetta sé rétt í dag eða ekki og hvort verið sé að fórna náttúruperlum sem við hefðum gjarnan viljað eiga áfram óbreyttar eftir að við höfum skoðað málið betur. En ég segi, sá veldur miklu sem upphafinu veldur, og í þessu tilfelli hafa menn sem þekkja svæðið mjög vel og hafa kynnt sér það manna best á landinu lagt til að virkjunin fari fram með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og jafnvel með mun meiri náttúruspjöllum en talað er um í dag. Þær væntingar sem búið er að rekja í þessu máli á Austfjörðum og fyrir efnahagslíf landsins eru svo miklar að það hefur reynst þeim sem hafa sannarlega viljað breyta þessu ferli nánast ógerningur að koma einhverjum nýjum hugmyndum að og þar stendur hnífurinn í kúnni að mínu mati.

Ef umhverfissinnar vilja þyrma einhverju af því svæði sem um er að ræða eins og Eyjabökkum, þá eiga menn að segja það. Mér finnst allt of mikil umræða fara fram um það hvort eitthvert umhverfismat eigi að fara fram eða ekki eins og það sé aðalatriðið. Það er löngu búið að ákveða í þinginu að þetta umhverfismat þurfi ekki að fara fram og reyndar er búið að breyta virkjuninni gríðarlega mikið þannig að umhverfið í kringum hana er allt annað en um var talað upphaflega og þeir samþykktu sem þá gerst þekktu allt svæðið sem á að breytast í kringum Fljótsdalsvirkjun.

Ég hef því undrast verulega að umhverfissinnar, sem hafa barist harðast í málinu, hafa ekki reynt að komast að einhverri málamiðlun, reynt að bera fram einhverjar nýjar hugmyndir á borði sem gætu þá komið í staðinn fyrir virkjunina í stað þess að hanga á þessu umhverfismati. Ég hef sjálfur lýst því yfir að mér finnist Eyjabakkasvæðið náttúruperla sem ég vildi sjá að yrði þyrmt. Ég hefði viljað leita leiða til þess að það væri hægt í sátt við stjórnvöld og Austfirðinga og aðra sem hafa haft miklar væntingar til þessa svæðis eða til þessara framkvæmda sem eiga að leiða af sér mörg störf fyrir Austfirðinga. En ég heyri ekki nokkurn umhverfisverndarsinna taka undir þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram og ég hef t.d. slegið fram, um að skynsamlegra væri að fara út í Kárahnjúkavirkjun en virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Mér finnst umhverfisverndarsinnar frekar lýsa því yfir að það séu jafnmikil helgispjöll að virkja við Kárahnjúka og við Eyjabakka. Þá velti ég því fyrir mér hvort umhverfisverndarsinnar séu yfirleitt á móti öllum virkjunum á Austfjörðum.

Ég er einn af þeim sem vilja leita sátta í flestum málum ef um alvarleg deilumál er að ræða og hef talið mig hafa sýnt það eins og í sjávarútvegsmálum og fleirum og hefði gjarnan viljað geta léð því eitthvert lið að þarna væri hægt að ná sáttum. En mér sýnist því miður að það ætli ekki takast. Ég held að ég verði að skora á umhverfissinna að endurskoða baráttuaðferðir sínar í þessu máli og reyna að leita að sameiginlegri niðurstöðu allra. Það sé ekki bara þannig að einn eigi að hafa allt sitt fram og hinir eigi að sitja eftir með sárt ennið. Ég held að það standi eftir ef fer fram sem horfir að það verði umhverfisverndarsinnar sem sitji uppi með það að hafa engu getað breytt og mér finnst það slæmt fyrir umhverfissinna.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, af því að ég reikna með að þetta mál fari til til umhvn., að þá haldi áfram sú umræða sem búin er að vera þar í nokkur skipti, og við verðum að gera okkur grein fyrir því hvernig framhald alls málsins verður. Ég get ekki séð sjálfur hvaða tilgangi það þjónar t.d. að flýta sér með þetta mál í gegnum umhvn., vitandi það að tillaga er á leiðinni frá hæstv. iðnrh. um að virkjunin verði staðfest inni í þinginu eina ferðina enn. Það er náttúrlega aðalmálið, þ.e. þau lög sem eru í gildi varðandi virkjunina, ef menn á annað borð vilja breyta einhverju þá hljóta þeir að þurfa að breyta lögunum. En að öðru leyti er þessi hugmynd bara áframhaldandi spjall um umhverfismat. Ég get því ekki séð að það að flýta sér með málið í gegnum umhvn. til að koma því á undan tillögu iðnrh. hafi nokkurn tilgang.

Ég hef hugsað mér sem hugmyndir í umhvn. þegar kemur að því að ræða þessi mál í fullri alvöru og ef af virkjuninni verður sem allar líkur eru til, hvernig getum við þá lágmarkað þau umhverfisspjöll sem verða af virkjuninni með einum eða öðrum hætti, eins og frægt er orðið sem orðatiltæki, bæði fyrir umhverfi og dýralíf. Það er eflaust hægt að gera margt til þess að þetta verði ekki að öllu leyti eins erfitt fyrir umhverfisverndarsinna að kyngja.

Ég ætla ekki að hafa meira mál um þetta, herra forseti, en mér rann blóðið til skyldunnar til að segja fáein orð um þetta mál og vona að í umhvn. náist einhver umræða sem fari út af því plani að vera endalaust að tala um umhverfismat sem allir eru löngu búnir að átta sig á að verður seint breytt frá því sem frumkvöðlar að þessu öllu saman lögðu til á þingi á sínum tíma.