Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:58:58 (228)

1999-10-07 15:58:58# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli svona málflutningi og hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að vita betur. Ef hann hefði hlustað á það sem ég sagði áðan, þá sagðist ég hafa opinberlega lagt til að það væri frekar farið út í Kárahnjúkavirkjun en Fljótsdalsvirkjun sem gæti leyst þann vanda sem er varðandi raforkuframleiðslu fyrir það álver sem er að ræða á Reyðarfirði. Ég mótmæli svona fullyrðingum. Ég kannast ekki við að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi komið með neina lausn á málinu. Hann hamast eins og hani á hól og segist vita betur en aðrir. Ég man ekki betur en það hafi verið flokkur hans og jafnvel hann sjálfur sem lagði það til á sínum tíma að þessi undanþága yrði veitt frá umhverfismati. Flokkur hans og ráðherra hans. (ÖS: Það var Hjörleifur.) Það var Hjörleifur líka, það var líka Hjörleifur. Það voru bara miklu fleiri þannig að ég held að hv. þm. ætti frekar að skoða ákvarðanir eigin flokks í þessu efni en ekki vera að ásaka aðra menn fyrir það að koma ekki með raunhæfar lausnir á því vandamáli sem við erum að ræða hér.

Það sem mér finnst hafa komið fram í máli hv. þm. er orðhengilsháttur.