Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:10:01 (235)

1999-10-07 16:10:01# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur sinnt þessum málum vel að mér finnst og sett sig inn í þau eftir bestu getu. Mér finnst það virðingarvert og tek undir það sem hún hefur sagt að ekkert kemur fram um það í þessu bráðabirgðaákvæði hvað er verið að tala um. En það segir mér um leið að verið sé að meina allt það sem var búið að samþykkja fyrir bráðabirgðaákvæðið. Það þarf því ekkert endilega að telja það upp. Ef ætti að telja upp eitt, þá þyrfti að telja upp allt. Ef eitt hefur gilt, þá hlýtur allt að gilda. Ef Nesjavellir hafa gilt þá hlýtur það að gilda líka með Jökulsá í Fljótsdal. Mér finnst það gefa auga leið þannig að ekki þurfi í sjálfu sér að velta því mjög lengi fyrir sér hvað felst í þessu bráðabirgðaákvæði og hvers vegna ekki kom fram í umræðunni neitt sem benti til að einhver ein framkvæmd væri mönnum hugleiknari en önnur.

Það segir manni líka heilmikið hvað þessi umhverfisumræða var komin skammt á þeim tíma að ekki skuli hafa verið minnst á neinar af þessum virkjunum, eins og t.d. Fljótsdalsvirkjun. Það er eins og þeir sem tala hæst núna um umhverfismál og eru utan þings og réðu mestu um framgang þessa máls á sínum tíma, virtust ekki hafa miklar áhyggjur af Fljótsdalsvirkjun á þeim tíma eða 1993, fyrir aðeins sex árum. Það er ekki fyrr en núna síðustu tvö árin að virkilega fer að heyrast eitthvað um áhyggjur umhverfismanna, eins og þeirra sem voru á síðasta þingi og búnir að vera áratugi á undan. Þá fer að heyrast verulega hátt um að þessi virkjun sé mikil náttúruspjöll og henni þyrfti að breyta eða gera á annan hátt heldur en þeir voru sjálfir áður búnir að leggja til. Ég held að þeir hafi ekki einu sinni sjálfir verið komnir svo langt í þessari umhverfisumræðu að þeir hafi áttað sig á þessu.