Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:25:51 (242)

1999-10-07 16:25:51# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir miður að hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir getur ekki verið viðstödd umræðuna vegna þess að hún er stödd erlendis. Jafnvel þó hæstv. utanrrh. sé staddur í húsinu sem fulltrúi hennar, starfandi umhvrh., þá eru þau mál sem ég vildi ræða við umhvrh. ekki þess eðlis að hæstv. ráðherra geti svarað þeim.

Það sem ég vildi gera að umræðuefni voru þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra, Siv Friðleifsdóttir, gaf í nóvember í fyrra, ef ég man rétt, þegar hún var að keppa við hæstv. ráðherra Finn Ingólfsson um embætti varaformanns Framsfl. Þá kom alveg skýrt fram hjá hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttur að hún var þess fýsandi að Fljótsdalsvirkjun og framkvæmdir henni tengdar færu í umhverfismat. Það hefur síðan komið fram af hálfu fyrrverandi formanns Sólar í Hvalfirði, Ólafs Magnússonar, að slíkar yfirlýsingar gaf Siv Friðleifsdóttir hæstv. ráðherra jafnframt innan flokksins.

En ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það sökum þess að hæstv. ráðherra er ekki viðstaddur en nauðsynlegt er að ganga eftir því við ráðherrann hvað olli þessum sinnaskiptum og það er nauðsynlegt að hún svari því hvort gerð hafi verið sú krafa á hendur hennar af hæstv. formanni Framsfl. að til þess að hún yrði umhvrh. gengist hún inn á það að skipta um þessa skoðun.

Þetta er eitt af því sem við munum auðvitað ræða þegar hæstv. iðn.- og viðskrh. kemur fram með þá þáltill. sem hann hefur boðað að muni koma hingað. Ég ætla ekki að ræða þá tillögu, herra forseti, en ég vil þó í upphafi máls míns geta þess að ég er algjörlega ósammála þeirri aðferð. Ég held að hún geti með engu móti komið í veg fyrir það lögformlega mat á umhverfisáhrifum sem þjóðin hefur ítrekað lýst yfir gegnum skoðanakannanir að hún vill.

Alþingismenn eru ekki óháðir sérfræðingar og stjórnarliða er með engu móti hægt að kalla óháða sérfræðinga. En það er engu líkara en að hæstv. iðn.- og viðskrh. telji að svo sé. Það er líka harðlega ámælisvert að hæstv. ráðherra hyggst fara með málið í gegnum þingið þannig að það komi ekki nema þá með einhverjum málamyndahætti til kasta hv. umhvn. Auðvitað liggur fyrir að þær deilur sem málið varða nánast snúa fyrst og fremst að umhverfisþáttum málsins.

Þetta fordæmi ég, herra forseti. Það má velta því fyrir sér hvað það er sem veldur því að þetta er gert. Líkast til eru hæstv. ráðherrar Framsfl. að reyna að draga Sjálfstfl. til frekari samábyrgðar í málinu. Út af fyrir sig má skilja það. Niðurstaða kosninganna sem fram fóru í vor og leiddu fram talsvert mikið tap Framsfl. má að stórum hluta rekja til nákvæmlega þessa máls og framgöngu hæstv. ráðherra Framsfl. í því.

Herra forseti. Þetta er auðvitað eitt af því sem við hljótum að taka til ítarlegrar umræðu þegar þáltill. hæstv. ráðherra, Finns Ingólfssonar, kemur hingað til þessa þingheims.

Um þetta mál hefur verið deilt mjög hart. Það er alveg ljóst að eins og umræðunni hefur verið hagað og eins og hún er stödd í dag mun niðurstaðan sem allt stefnir í skilja eftir sig ekki bara sár á því svæði sem um er að ræða heldur líka holundarsár meðal þjóðarinnar vegna þess að þjóðin skiptist í mjög ólíka og ójafna en harðdræga hópa. Umræðan er einfaldlega orðin það þroskuð, menn eru búnir að ræða þetta mál í þaula, málsatvik eru flest kunn þannig að flestir eru búnir að taka mjög einarða afstöðu. Skoðanakannanir benda til þess að sú afstaða sé afar andstæð hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Ég held að hvernig sem maður skoðar málið þá sé nauðsynlegt að reyna að ná einhverri sátt um þetta. Eina sáttaleiðin sem hægt er að bjóða upp á er hið lögformlega umhverfismat. Ég hef lýst því yfir skýrt og skorinort að ég er á móti því að Eyjabökkum verði sökkt.

[16:30]

Ég hef hins vegar líka sagt að til málamiðlunar vil ég fyrir mitt leyti fallast á að mat á umhverfisáhrifum verði framkvæmt. Og ef niðurstaðan er sú að í þessa framkvæmd beri að fara þá mun ég hlíta því, það er svo einfalt mál.

Mér finnst að hæstv. ráðherrar hljóti að meta það að menn eru í rauninni að ganga hér talsvert langt til samkomulags, ekki síst miðað við það að hvernig sem hægt er að hugsa sér þann feril þá tel ég óhjákvæmilegt annað en að honum lykti með því að hæstv. umhvrh. muni hafa síðasta orðið. Og miðað við yfirlýsingar Sivjar Friðleifsdóttur, hæstv. ráðherra, og framgöngu hennar í því máli, þá finnst mér að hæstv. ráðherrar, sem hér sitja á bekk, hljóti að fallast á að menn eru að stíga ansi stórt skref í samkomulagsátt með því móti sem ég er að gera hér. Ég er einfaldlega að lýsa því yfir að ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn, í kjölfar lögformlegs mats og skýrslna sem lagðar eru fram sem því fylgja, til að fallast á niðurstöðu sem hæstv. ráðherra mun í lok þess ferils taka. Og ég segi það alveg einlæglega að það er ansi stórt skref og mikil fórn af minni hálfu. Þetta vil ég að komi alveg skýrt fram.

Ég tel að eina leiðin til að hægt sé að ná einhverjum sáttum um þetta mál, sem er farið að tæta ansi stór sár á a.m.k. hinn sálræna líkama þjóðarinnar, sé að reyna einhvern veginn að bera græðandi smyrsl á. Þetta er hið eina sem hægt er. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Það er kannski tvennt fyrst og fremst sem menn hafa mælt því í mót. Annars vegar þegar talað er um, hæstv. ráðherrar, sinnaskipti manna eins og mín og annarra sem 1993 greiddu hér atkvæði með umdeildu bráðabirgðaákvæði í lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Ég segi það alveg hreinskilnislega að ég minnist þess aldrei að Fljótsdalsvirkjun hafi komið til umræðu í þeim efnum. Ég minnist þess hins vegar að Gilsfjarðarbrúin kom svolítið til umræðu varðandi það. Ég nefni það líka að síðan eru liðin sex ár og á sex árum hafa miklar breytingar orðið og það er ekkert óeðlilegt við það að menn skipti um skoðanir. Ég bendi t.d. á að árið 1989 var hæstv. forsrh. formaður framtíðarnefndar og hann hafði nú ansi fögur orð uppi um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá. Nokkrum árum seinna var hann kominn á allt aðra skoðun. Tíminn sem leið á milli sinnaskipta hæstv. forsrh. í þeim mikilvæga málaflokki var mun styttri en leið frá samþykkt þessara laga og tímans í dag. Fyrrv. umhvrh., Guðmundur Bjarnason, lagði það til á sínum tíma í júní 1998 að menn færu í umhverfismat. Og hefðu menn gert það þá væru hin rökin, þ.e. skortur á tíma, dauð og ómerk. Ég held jafnframt, herra forseti, að sá tími sé enn fyrir hendi. En auðvitað geta menn í dag fært önnur rök.

Hæstv. iðnrh. hefur haldið nokkuð klókindalega á þessu máli. Þegar við vorum að deila við hann í fyrra þá vildi hann aldrei segja af eða á um hvort að setja ætti þetta í feril lögformlegs umhverfismats. En hann sagði hins vegar í nóvember 1998 að þegar frummatsskýrsla sem væri í gangi hjá Landsvirkjun, lægi fyrir þá mundi stjórn þess fyrirtækis taka ákvörðun um það. Ég gæti lesið ummæli hans þessa efnis fyrir hann. Síðan hefur hann skipt um skoðun og það liggur alveg fyrir skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki á að láta stjórn fyrirtækisins meta það, sem ég skil auðvitað. Hæstv. ráðherra var auðvitað á sínum tíma að nota þetta til þess að sveigja umræðuna og blekkja okkur sem vorum hér að reyna að tala við hann.