Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:50:50 (245)

1999-10-07 16:50:50# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni í dag að flutningsmenn þessarar þáltill. eru andvígir Fljótsdalsvirkjun. Það hefur líka komið fram að þeir eru andvígir stóriðju. Þeir eru hins vegar fylgjandi því að aðrar virkjanir séu reistar á Austurlandi en ekki til stóriðju.

Nú liggur alveg ljóst fyrir að Fljótsdalsvirkjun er það stór virkjun að ekki er hagkvæmt að virkja hana nema stór orkukaupandi komi til. Það hefur jafnframt komið fram í umræðunni að viðkomandi hv. alþm. telja hins vegar rétt að það fari fram það sem menn kalla lögformlegt umhverfismat, og oft látið í það skína að hér sé ekki unnið að lögum. Ég held að öllum megi ljóst að unnið er að málinu samkvæmt lögum. Þessi virkjun hefur verið boðin út. Ég var viðstaddur þegar þáv. iðnrh. Jón Sigurðsson, í fyrri ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., tók skóflustungu að virkjuninni þannig að framkvæmdir eru hafnar.

Menn mega ekki líta þannig á að það sé ekkert verið að vinna í umhverfismálum í sambandi við málið. Miklar rannsóknir hafa átt sér stað og það mun koma fram skýrsla frá Landsvirkjun og ríkisstjórnin mun flytja þáltill. um þetta mál þar sem hún mun skýra sjónarmið sín og þá myndast möguleikar til að fjalla um þetta mál ítarlega á Alþingi, leita eftir áliti aðila og fá jafnframt álit þeirra sem vilja láta álit sitt í ljós.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að afar vafasamt sé að ákveða að fjalla um málið á grundvelli laganna frá 1993 svo ekki sé meira sagt. Alþingi hefur veitt virkjunarleyfi. Alþingi hefur ákveðið að þessi framkvæmd ásamt ýmsum öðrum framkvæmdum, ekki aðeins þessari virkjun heldur jafnframt virkjun á Nesjavöllum, virkjun í Svartsengi og ýmsum öðrum framkvæmdum í landinu sé undanþegin þessum lögum. Þetta liggur alveg skýrt fyrir. Er eðlilegt að taka ákvörðun sem Alþingi hefur sjálft tekið og setja það í hendurnar á embættismannastofnun, svo ágæt sem hún kann að vera, og síðan eigi einn ráðherra í ríkisstjórn að taka endanlega ákvörðun? Eru það lýðræðisleg vinnubrögð? Er ekki eðlilegra að Alþingi afturkalli þá þetta leyfi?

Það má líka spyrja: Eru lögin um mat á umhverfisáhrifum frá 1993 e.t.v. eitthvað gölluð? Er skynsamlegt að þetta vald sé í höndum þessarar stofnunar og umhvrh. í öllum tilvikum þegar um mjög stórar framkvæmdir er að ræða? Væri t.d. eðlilegt, ef kæmi fram tillaga um það, að taka það vatn sem er í Jökulsá á Fjöllum og veita því austur á land, að fjallað væri um það með þeim hætti? Ég tel að það sé stór ákvörðun ef slíkt væri gert, að aðeins Alþingi gæti tekið þá ákvörðun, ég tala ekki um ef einhverjum dytti í hug að fara að virkja Hvítá, sem einu sinni voru áform um þannig að vatnið færi að Gullfossi. Mér finnst vera takmörk fyrir því hvað hv. þingmenn vilja setja mikið vald í hendurnar á þessari annars ágætu stofnun, og lög. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit jafn vel og ég að þessar lagaheimildar eru fyrir hendi og ríkisstjórnin sem hann sat í hóf framkvæmdir við virkjunina. Var honum ekki kunnugt um þessa skóflustungu á sínum tíma? Ég spyr á móti: Hvað hefur breyst síðan? Menn segja að ýmislegt hafi breyst í samfélaginu, það eru önnur sjónarmið. Það er út af fyrir sig rétt. Það eru önnur sjónarmið. En spurningin er sú sama í dag og hefur alltaf verið. Er rétt að setja Eyjabakka undir vatn eða ekki? Ef menn telja það ekki rétt þá verður ekkert virkjað. Ég held að hv. alþm. séu alveg jafnfærir um að svara þeirri spurningu og skipulagsstjóri ríkisins og ég tel þá í reynd hæfari til þess. Ég tel að hv. alþm. hafi allar upplýsingar í höndum til að taka afstöðu til þess. Þeir geta leitað ráða hjá skipulagsstjóra ríkisins, ekki hef ég á móti því. En ég tel eðlilegt að það séu þingmenn sjálfir sem taka þá mikilvægu ákvörðun að þetta yrði með einhverju móti afturkallað. Það mun hafa mjög mikil áhrif í samfélaginu. Það mun hafa áhrif á hag Austurlands, mjög mikil því að þetta fjallar ekki bara um umhverfið, hið fallega umhverfi sem er í kringum Snæfell. Það fjallar líka um byggðirnar, það fjallar líka um fólkið þannig að það verður að líta á þetta mál í víðara samhengi.

Hæstv. forseti. Áreiðanlega á eftir að fara fram mikil umræða um þetta mál. Eitt vil ég þó segja að lokum vegna ummæla, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þar sem hann gaf í skyn að núv. hæstv. umhvrh. hafi breytt um skoðun. Núv. hæstv. umhvrh. hefur verið þeirrar skoðunar að fram fari umhverfismat og það fer fram umhverfismat. Það veit hv. þm. En það fer ekki fram samkvæmt lögunum frá 1993. Það fer fram umhverfismat og það hafa farið fram mjög viðamiklar rannsóknir og ég fullyrði að ekkert annað mannvirki í landinu hefur gengist undir jafnmiklar rannsóknir, ekkert annað mannvirki. En það er ekki unnið á grundvelli laganna frá 1993 þó að ýmislegt sé nú gert samkvæmt þeim, eins og þessi frummatsskýrsla Landsvirkjunar sem nú er unnið að, er mjög sambærilegum hætti og gert hefði verið ef það hefði í einu og öllu verið byggt á lögunum frá 1993 þannig að vissulega fer fram umhverfismat.

Hins vegar er rangt hjá honum ef hann heldur að þannig standi menn að málum þegar myndaðar eru ríkisstjórnir að menn setji einhver skilyrði gagnvart ráðherrum. Það gera menn ekki. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir hver er stefna núverandi ríkisstjórnar í málinu. Stefnan er sú að vinna að því að virkja á Austurlandi til þess að efla þann fjórðung til hagsbóta fyrir fólkið þar og til hagsbóta fyrir landið allt. Svo einfalt er það og það stendur í stjórnarsáttmálanum.