Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:59:11 (246)

1999-10-07 16:59:11# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. starafandi umhvrh. sagði í ræðustóli fyrir stundu að farið sé að lögum með því að láta 63 alþingismenn fjalla um frummatsskýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Um þetta greinir okkur stórlega á. Að mati okkar sem flytjum þessa þáltill. er ekki verið að fara að lögum jafnvel þó svo við höfum öll haldbær gögn í höndunum. Við höfum líka haldbær gögn í höndunum sem segja okkur að 80% þjóðarinnar, sem við erum fulltrúar fyrir, séu á því máli að virkjunin eigi að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Við erum fulltrúar þjóðarinnar og ef við eigum að taka mið af öllum gögnum sem við höfum eigum við líka að taka mið af því sem þjóðin vill.

Hér er um skammtímaávinning að ræða varðandi stóriðjuna. Ég kem kannski nánar inn á það í lokaorðum mínum. En málið er það að stóriðjan sem á að fá þessa orku sem um ræðir er okkur ekki að skapi. Við erum ekki að ræða um hana núna heldur hið lögformlega mat og ég vík nánar að stóriðjunni í lokaorðum mínum.