Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:01:53 (248)

1999-10-07 17:01:53# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að eitt af því sem umhverfismat gæti haft í för með sér er að aðrir kostir í beislun afls úr Jökulsá á Dal kæmu til skoðunar. Það er mjög líklegt að skipulagsstjóri mundi fara fram á það að aðrir virkjunarkostir, allir aðrir möguleikar... (Utanrrh.: Jökulsá í Fljótsdal?) nei, Jökulsá á Dal, yrðu teknir, skoðaðir og bornir saman eins og við sjáum og heyrum mjög iðulega að er niðurstaða skipulagsstjóra núna, t.d. þegar mismunandi kostir í vegalagningu eiga í hlut. Ástæðan fyrir því að menn hanga eins og hundar á roði á nákvæmlega þessari virkjunartilhögun, hver er hún? Hún er sú að menn telja að með því komist þeir fram hjá lögformlegu umhverfismati. Um leið og þeirri tilhögun væri breytt yrðu þær breytingar að sjálfsögðu að fara í umhverfismat.

Gæti hugsast að ástæðan fyrir því að þetta vald er samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fært skipulagsstjóra og síðan úrskurðarvaldi umhvrh., sem hæstv. ráðherra dregur nú í efa að sé skynsamlegt fyrirkomulag, væri sú að við þá lagasetningu höfðu menn í huga að umhvrh. væri umhverfisráðherra þ.e. sá sem gæta ætti náttúrunnar, færi með náttúruverndarlög, væri yfirmaður Náttúruverndar ríkisins, stæði í lappirnar í því hlutverki og léti náttúruna njóta vafans ef svo bæri undir?