Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:12:31 (256)

1999-10-07 17:12:31# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur auðvitað dregið orð mín í efa. En hann getur skoðað umræðuna frá því að ég varð umhvrh. í júní 1993. Þá var mikil umræða um að virkja Jökulsá á Fjöllum. Þá talaði ekki nokkur einasti maður um Fljótsdalsvirkjun. Menn töldu þá, eins og þróunin hafði verið, að það væru draumórar eins og verið hafði mjög lengi og að ekkert yrði úr þeirri virkjun.

Varðandi, herra forseti, það er hæstv. ráðherra talar um skoðun mína á getu ráðherra og einstakra stofnana, þá er það einfaldlega þannig að þingheimur hefur kosið að setja lög þar sem búinn er til ákveðinn ferill. Hæstv. ráðherra virðist ekki bara tala um þessa tilteknu framkvæmd heldur að í framtíðinni eigi stórvirkjanir ekki að falla undir þessi lög. Hann er að gera því skóna að nauðsynlegt sé að breyta lögum, ekki bara varðandi þessa tilteknu virkjun heldur aðrar virkjanir.

Lögformlegt umhverfismat. Hvers vegna? Hæstv. ráðherra kom sjálfur fyrstur fram með valkost. Hann nefndi fyrir einhverjum mánuðum, einu og hálfu missiri sagði ég fyrr í dag, möguleikann á Kárahnjúkavirkjun. Mörgum finnst það vera valkostur. Það er ekki hægt að meta það nema að gert verði lögformlegt umhverfismat. Það er heila málið.