Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:23:47 (259)

1999-10-07 17:23:47# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera lítið úr þeim störfum sem kalla þingmenn frá jafnmikilvægri umræðu og hér hefur farið fram. En hv. þm. hefur greinilega ekki fylgst með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Hún kemur og talar á allt öðru brautarspori en hér hefur verið talað í dag og á allt öðru brautarspori en þessi þáltill. fjallar um.

Hv. þm. biður um að ég kynni mér öll sjónarmið málsins, náttúrufarslega, byggðarlega og þar fram eftir götunum og að umhvn. geri það líka. Um það er nákvæmlega verið er að biðja með þeirri þáltill. sem hér er borin fram og nákvæmlega það sem verið er að biðja um í þeirri samþykkt sem þingmaðurinn las upp í ræðu sinni. Mér finnst að hv. ræðumaður sé einmitt að fylgja okkur hinum sem viljum fá málefnalega, almenna og víðtæka umræðu um þetta mál. Það er gert með því að virkjunin fari í mat á umhverfisáhrifum.

Ég mun koma á eftir og gefa mér nokkurn tíma til þess að ræða önnur efnisatriði. En ég bið hv. þm. um að halda sig við þau efnisatriði sem hér eru til umræðu og eru einmitt þau að taka þetta ítarlega til rannsóknar með lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Hér er ekki verið að tala um hvort virkja eigi eða virkja ekki. Menn eru að tala um vinnubrögð.