Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:33:28 (265)

1999-10-07 17:33:28# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gerði áðan að umtalsefni framkvæmdaleyfi sem þáv. iðnrh., Jón Sigurðsson, gaf út í lok aprílmánaðar 1991. Þá sat að völdum starfsstjórn Steingríms Hermannssonar og fáeinir dagar voru til þess að stjórnarskipti yrðu. Minni mitt svíkur illa ef það gerðist ekki 1. maí, nokkrum dögum síðar.

Flestir vissu það, hygg ég, nema þá e.t.v. þessi hæstv. iðnrh., að hraðminnkandi líkur voru einmitt þá á því að nokkuð yrði af þessum framkvæmdum. Að vísu voru endalausar undirskriftir og blaðamannafundir út í loftið, en flestir sem til þekktu á bak við tjöldin vissu að hraðminnkandi líkur voru á því að nokkuð yrði úr þessum framkvæmdum. Atlantsálshópurinn var allur kominn í bakkgír og hafði verið um mánaðaskeið. Reyndar hafði maður gengið undir manns hönd að reyna að fullvissa Landsvirkjun og iðnrh. um að óskynsamlegt væri að halda áfram að reyna að kynda upp væntingar og vera með undirskriftir og fundi um að þetta væri allt á fullri ferð, því eins og kom á daginn þá varð ekkert úr neinu.

Auk þess veit hæstv. utanrrh. og þáv. sjútvrh. og félagi minn í þeirri ríkisstjórn að mjög deildar meiningar voru á þeim bæ einmitt um framgöngu hæstv. iðnrh. í málinu. Það var einkaframtak hans sem leit þarna dagsins ljós, að gefa út framkvæmdaleyfið án þess að það væri mjög hyggilegt miðað við stöðu málsins þessa apríldaga. Svo kom á daginn að bæði hann og Landsvirkjun voru komin langt fram úr málinu því að það náðust auðvitað aldrei neinir samningar um raforkuverð og það reyndist hafa verið algjörlega ótímabært að hefja framkvæmdir eins og kom á daginn.

Herra forseti. Í öðru lagi vil ég leggja á það áherslu að nauðsynlegt er að menn noti rétt hugtök. Það sem iðnrh. hefur frá Alþingi varðandi stærri virkjanir og hafði frá og með lagasetningu 1981 eru heimildarlög. Iðnrh. hefur í sínum höndum heimild til að veita virkjunarleyfi. En það er í valdi hans. Það má segja að Alþingi með þeim hætti framselji ráðherra vald til að meta hvort og þá hvenær og hvernig og að hvaða skilyrðum uppfylltum séu forsendur til að veita slíkt framkvæmdaleyfi.

Úr því að iðnrh. hefur þetta vald og getur veitt þetta framkvæmdaleyfi þá vaknar eðlilega eftirfarandi spurning: Getur hann ekki líka afturkallað það? Er það þá ekki líka í valdi ráðherra, þó að ég viðurkenni fúslega að betra væri að hafa um það leiðsögn í lögum, að t.d. tímabinda slíkt leyfi eins og gert er með aðrar framkvæmdir þegar veitt eru byggingarleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum? Það er auðvitað brotalöm í þessu þegar betur er að gáð sem þarf að leiðrétta.

Herra forseti. Það er algjörlega nauðsynlegt að þessi tillaga fái efnislega afgreiðslu á Alþingi og það fyrr en seinna. Það væri algjörlega óverjandi í þingræðislegu tilliti og öllu tilliti, eins og þetta mál er orðið vaxið, ef það fengi ekki efnislega afgreiðslu á Alþingi. Í raun á það að vera forgangsmál og koma fyrst, en annars í allra síðasta lagi samsíða þeim málatilbúnaði sem hæstv. iðnrh. er hér að boða og ég ætla ekki að eyða tíma í að fara orðum um.

Fyrir utan öll önnur rök sem hér hafa komið fram og mæla að sjálfsögðu með því að lögformlegt umhverfismat fari fram --- ég bið menn í guðs bænum að reyna að halda hlutunum aðgreindum. Í raun og veru á ekki að tala um mat á umhverfisáhrifum þegar sú rannsóknarvinna sem Landsvirkjun hefur haft með höndum er til umfjöllunar. Það er réttara að segja að þar sé á ferðinni úttekt á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Það veldur ruglingi og misskilningi að tala þar um umhverfismat. Ég held að við eigum að halda okkur við það að umhverfismat sé eingöngu hið lögformlega umhverfismat sem lýtur þeim reglum. Annað eru eftir atvikum úttektir og skýrslur á umhverfisáhrifum sem menn geta auðvitað látið gera og getur verið allt gott um að segja.

Ég held einmitt, eins og ég kom aðeins að áðan, að lögformlegt umhverfismat sé mjög líklegt til að draga fram þá kosti sem menn hafa og þurfa að taka pólitíska afstöðu til. Ætlum við t.d. að taka orkuna úr Jökulsá í Fljótsdal og virkja hana á ódýrasta máta þó það kosti mun meiri umhverfisspjöll en ella þyrftu að verða? Ef við stöndum frammi fyrir því að viðbótarathuganir sem skipulagsstjóri mundi mæla fyrir um að yrði farið í sýni okkur að hægt er að virkja Jökulsá í Fljótsdal á annan hátt, með kannski 10--15% minna afli og e.t.v. 20--30% dýrari orku, þá eru það kostir sem við þurfum að taka pólitíska afstöðu til. Viljum við kosta því til í þágu umhverfisverndar eða ekki? Má umhverfisverndin kosta eða ekki? Eru einhverjar innstæður fyrir orðum manna um það að þeir vilji vernda náttúru landsins eða ekki? Er það bara til þess að nota í ræðum á sunnudögum en þegar til stykkisins kemur þá gildi það ekki? Það er um þetta m.a. sem málið snýst, að menn ýti því ekki lengur á undan sér á Íslandi að taka afstöðu til svona hluta. Það hafa menn gert eða kannski að mestu leyti komist upp með og komist fram hjá hingað til.

Um byggðaumræðuna hef ég aðeins tíma til að segja þetta: Ég skil og hef mikla samúð með þeim Austfirðingum og forsvarsmönnum byggðamála á Austurlandi sem eru gengnir upp að hnjám í erfiðri baráttu fyrir byggðarlög sín. Hver gerir það ekki sem þekkir til byggðamála á landinu? En það er dapurlegt að þau hin sömu stjórnvöld og hafa mjög lítið gert að undanförnu til að reyna að snúa þeirri þróun við og hafa horft upp á hartnær tvö þúsund manns fara af landsbyggðinni ár eftir ár, stóran hluta af Austfjörðum, koma núna og stilla mönnum upp við vegg og segja: ,,Álver eða dauði.``

Auðvitað er ekki hægt, herra forseti, að færa það fram sem lið í almennum aðgerðum gagnvart atvinnu- og byggðavanda landsbyggðarinnar í heild að hann eigi að leysa með því að reisa eitt stykki álver á einum stað á landinu. Það er ekki þannig. Byggðaaðgerðir sem standa undir nafni verða að vera almennar í þeim skilningi að þær hafi áhrif um landið allt, að þær breyti hinum undirliggjandi aðstæðum fólks til að búa í byggðarlögum sínum og jafni þann aðstöðumun sem þar er við að glíma. Það er þannig lagað, herra forseti, að mínu mati mikill ábyrgðarhlutur hvernig stjórnvöld sem hafa setið á höndunum á sér allan þennan áratug í byggðamálum koma svo og nota það neyðarástand sem þau sjálf eiga þátt í að skapa sem rök í þessu máli. Það er ljótur leikur.

Herra forseti. Ég held að lokum að eitt það allra mikilvægasta fyrir Íslendinga sé nú að skapa sér svigrúm til þess að endurmeta hlutina. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða og gera upp við hina gömlu og úreltu stóriðjustefnu. Hún er okkur ekki til farsældar. Hún er okkur ekki gott veganesti inn í nýja öld. Það þarf nýjar áherslur sem taka mið af þeim viðhorfum sem nú eru uppi og þeim aðstæðum sem við stöndum nú frammi fyrir, en ekki 30--40 ára gamla blinda stóriðjustefnu Nordals. En það er enn leiðarljós þessara manna því miður.