Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:56:04 (271)

1999-10-07 17:56:04# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fer að halda að þetta sé einhver atvinnusjúkdómur sem hrjái þingmenn Austurlands. Þeir heyra allt annað en það sem ég taldi mig hafa sagt, að vísu með örugglega einni góðri undantekningu, og virðast leggja lykkju á leið sína til að misskilja alla hluti. Heyrði einhver mig segja að það mætti bara alls ekki virkja á Austurlandi? (ArnbS: Þú hafðir uppi allt annað ...) Það er akkúrat þveröfugt. Ég nefndi að það væru margir slíkir kostir einmitt á Austurlandi. Þar eru að vísu ekki miklir jarðhitavirkjanakostir, nema menn telji Kverkfjöll til Austfjarða og verður nú kannski erfitt að beisla orkuna þar. En það eru margir minni og meðalstórir virkjunarkostir í bergvatnsám á Austurlandi. Og það er að sjálfsögðu rétt og skylt að skoða þá kosti sem felast í að beisla orku jökulánna, en með þeim hætti þá sem minnstum umhverfisspjöllum veldur.

Eitt er t.d. það sem ég held að menn hafi ekki almennilega tekið inn í myndina og það er að því fylgja gífurlegir erfiðleikar að beisla orku í aurugum jökulám og vera þar með miðlun á uppistöðulón. Það mundi gera það í öllu tilliti. En það hefur þann stóra ókost í för með sér að lónin fyllast. Þau eru dæmd til að fyllast og á lygilega skömmum tíma t.d. þegar Jökulsá á Dal á í hlut því að hún er aurugasta fljót landsins með gífurlegan framburð. (Gripið fram í: 300 ár.) Menn geta auðvitað sagt að það komi okkur ekki við, það vandamál sem þar verður skilið eftir handa komandi kynslóðum til að glíma við. En þetta eru hlutir sem mér finnst að menn eigi að horfast í augu við og viðurkenna.

Ég er algjörlega sannfærður um að þegar menn verða búnir að vinna þá vinnu sem er nú loksins komin í gang --- og það er gott að það er komið í gang þó að forræðið mætti reyndar vera annars staðar --- þ.e. þá kortlagningu á virkjunarkostum sem er loksins núna að fara af stað 20--30 árum of seint, t.d. 20--30 árum á eftir Norðmönnum sem luku þessu verki á sjöunda og áttunda áratugnum hjá sér, þá mun niðurstaðan verða verulega breyttar áherslur í þessum efnum. Ég er sannfærður um það vegna þess að allt mælir með því frá umhverfislegu tilliti að taka nýtingu jarðhitans meira inn í og að skoða upp á nýtt þann möguleika að fullnægja t.d. þörfum almenna markaðarins og notendamarkaðarins með fleiri og smærri virkjunum.

Það væri ágætt fyrir menn að lesa ævisögu Sigurðar heitins Thoroddsens verkfræðings sem var á sínum tíma helsti sérfræðingur þjóðarinnar í virkjunarmálum og virkjunarkostum og heyra þær efasemdir sem leituðu á gamla manninn undir lokin um það hvort Íslendingar væru á réttri braut hvað varðaði þessa stórvirkjanastefnu. Hann sagði, ef ég man rétt og þó er nokkuð um liðið síðan ég las þessa ágætu bók, að sennilega hefði það verið að mörgu leyti röng stefna sem tekin var þegar lagt var upp með hinar stóru virkjanir, að við hefðum átt að leggja mun meiri áherslu á að taka fleiri og smærri virkjanir í gagnið og það hefði að mörgu leyti þjónað hagsmunum okkar betur.

Ég er sömu skoðunar og hef lengi verið. Ég held að hin blinda stórvirkjanastefna sem hér hefur að mörgu leyti verið rekin sé mistök. Verkfræðingarnir okkar hafa einhvern veginn sloppið lausir. Það er að vísu alveg rétt að oft fæst ódýrasta orkan á einingu út úr slíkum stórreikningsdæmum. En hvernig? Með því m.a. að meta náttúruna sem er fórnað, einskis. Hún er núll. Eyjabakkar eru núll. Þeir kosta ekki eina einustu krónu í arðsemismati á virkjuninni. Er það rétt? Finnst okkur það vera þannig að þeir séu einskis virði, einskis? Ef við eigum kost á því að fullnægja orkuþörf okkar, og þess vegna alveg eins þó um nokkuð stóra iðnaðarkosti sé að ræða, með t.d. fleiri og smærri virkjunum sem hafa minni umhverfisfórnir í för með sér, eigum við þá ekki að skoða það? Er ekki rétt að taka sér tíma í slíkt? Liggur okkur svoleiðis lífið á að himinn og jörð farist ef þetta verður ekki knúið í gegn nákvæmlega núna þegar loksins er komin í gang vinna við að endurmeta þessa hluti, þó seint sé? Við þurfum líka að taka hlutina í þetta samhengi.