Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:58:57 (273)

1999-10-07 17:58:57# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvað veldur þessari gífurlegu löngun til þess að snúa út úr orðum mínum og ég skal leiða það hjá mér með öllu.

Nei, það er ekki sama hvar uppistöðulón eru reist ef þau þarf að reisa eða þau eru reist. Því fylgja að vísu mikil vandamál að virkja jökulár beint, sem beinar rennslisvirkjanir, vegna þess að þá er náttúrlega framburðurinn tekinn í gegnum túrbínurnar. Við vitum hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér, m.a. eru góð dæmi um það frá Laxá þar sem sandur slítur mjög blöðunum í túrbínunum.

En það skiptir mjög miklu máli hvar uppistöðulón er og hvers eðlis það er. Einn af mörgum göllum við Eyjabakkamiðlun er sá að þar er um grunnt og víðáttumikið lón að ræða. Innsti hluti þess er dæmdur til að fyllast upp hratt. Þar munu tiltölulega fljótlega, á fyrstu áratugum lónsins, myndast gífurlegar eyrar. Fljúgi menn bara yfir Blöndulón núna, jafnvel í hæstu vatnsstöðu, og það kemur mönnum væntanlega á óvart hversu langt norður eftir eyrarnar eru komnar nú þegar. Síðan hægir auðvitað á því eftir því sem kemur lengra norður í lónin og þau dýpka.

[18:00]

Eyjabakkamiðlun, á því svæði sem nú er fyrirhuguð, er því miður mjög grunn og víðáttumikil og er þar af leiðandi mjög óhagkvæm, ef svo má að orði komast. Lón sem væri neðar og væri minna að flatarmáli en dýpra, er að flestu leyti skárri kostur. Það er það út frá þessum sjónarmiðum séð.

Eyjabakkalóninu mun fylgja gífurlega umfangsmikið vatnsborð, annars vegar í hlíðum Snæfells og hins vegar austur á hraununum þar sem vatnsborðinu verður dúndrað upp og niður um þá 15--20 metra sem lónið er á dýpt. Það verða ekki geðsleg sár þegar lónið er í lágri vatnsstöðu. Þessir hlutir skipta því miklu máli og það er það sem ég er að reyna að fá inn í umræðuna, en gengur alveg hörmulega því að menn snúa stanslaust út úr fyrir mér, að það skiptir mjög miklu máli að menn skoði vandlega hverjir eru skástu kostirnir í þessu. Þetta er ekki bara annaðhvort eða. Það er ekki þannig. Þetta er spurning um það hvernig við gerum hlutina og að við vöndum okkur og reynum að velja bestu kostina í hverju tilviki.

Auðvitað verður það væntanlega niðurstaðan að sumar virkjanir reisum við alls ekki. Öll þjóðin er væntanlega orðin sammála um að hugmyndir um að virkja Gullfoss eru úr sögunni. En það er ekki langt síðan menn ætluðu að gera það. Og er það ekki ágætis umhugsunarefni fyrir okkur að það er ekki lengra síðan en raun ber vitni að menn voru á fullri ferð að hanna slíkar virkjanir?