Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:01:41 (274)

1999-10-07 18:01:41# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég vil koma að umfangi og stærð þessa verkefnis þegar horft er til lengri tíma og gera það að aðalumræðuefni á þeim átta mínútum sem ég hef núna til ráðstöfunar. Að sjálfsögðu mun gefast annað tækifæri til þess, bæði við síðari umr. þessa máls og eins líka þegar málið verður tekið hér fyrir eins og ríkisstjórnin boðar.

En áður vil ég leyfa mér aðeins að bera mig upp undan málflutningi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. Ég virði það að hún hefur ábyggilega haft öðrum hnöppum að hneppa og það höfum við þingmenn oft, en hún kemur inn í lok eða seinni hluta umræðunnar og byrjar tal um marga hluti sem hér voru afgreiddir (Gripið fram í.) og er að setja okkur heimaverkefni í umhvn. Svo þegar brugðist er við því þá er það lagt út þannig að menn vilji ekki ræða eða kynna sér málefni sem snúa að byggðunum og lífinu fyrir austan. Að sjálfsögðu munum við gera það. Öllum sem taka hér til máls í dag er alveg ljóst að þar eru miklir hagsmunir. Og það er tækifærisbragur á því að gera okkur upp slíkar skoðanir.

Virðulegi forseti. Ég vil beina sjónum að verkefninu öllu til lengri tíma. Ég get ekki farið út í rök sem liggja að baki þeirri algjöru vissu minni að virkjunum á Austurlandi muni ekki ljúka með Eyjabakkavirkjuninni heldur mun nauðsynlegt að stækka álverið og fara út í annan áfanga. Það er algjör nauðsyn. Þar er mun meiri arðsemi á ferðinni og vegna hagræðingar í áliðnaði munu menn krefjast þess að farið verði út í stækkun. Það verður enn frekari krafa um það vegna þess að Íslendingar eru þá meirihlutaaðilar og reyndar hefur mér alltaf fundist mjög sérkennilegt að jafnákafur samningsaðili og Norsk Hydro er talinn vera skuli skyndilega vera kominn í minni hluta í málinu.

En hvað erum við að tala um ef Fljótsdalsvirkjun ein í þessu verkefni þegar horft er þó ekki nema til annars áfangans mun ekki duga núna? Við erum að tala um að fara í Kárahnjúka, í Dimmugljúfur. Allir útreikningar sem lagðir hafa verið til grundvallar um arðsemi álversins og það verð sem á að koma inn í öðrum áfanganum eru byggðir á Kárahnjúkavirkjun, Dimmugljúfrum.

Þetta er jafndagljóst eins og við stöndum hér. Menn skulu gera sér algjörlega grein fyrir því --- og ég bið hæstv. forseta að taka eftir orðum mínum og þá sem mál mitt heyra --- við skulum gera okkur grein fyrir því að um leið og Íslendingar eru farnir út í þetta verkefni í fyrsta áfanga með meirihlutaeign þá eru þeir komnir út í annan áfanga.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim vanda sem núna er á Austurlandi. En hvernig halda hv. þm. að þetta muni líta út þegar álverið stendur í uppnámi og er orðið óarðbærara en það var í upphafi og menn krefjast þess að vinnustaðurinn muni standa? Krafan er léttvæg núna. Menn gera alltaf lítið úr þessu og það er aldrei hægt að tala um nokkuð annað, það er alltaf gert jafnlítið úr því. Það er ekki hægt að nálgast þetta mál á nokkurn hátt því að menn eru eins og særð dýr sem hafa lokast inni í horni. Það má ekkert bjóða. En hvernig halda menn að þetta verði í öðrum áfanganum? Að sjálfsögðu eru Kárahnjúkar inni í þessu dæmi. Það er þess vegna sem ég og fleiri höfum verið að biðja um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. til þess að þetta dæmi og þetta verkefni allt til lengri tíma verði skoðað. Ég spyr: Ef Kárahnjúkarnir fást ekki af einhverjum ástæðum, t.d. vegna breyttra viðhorfa í landinu, vegna þess að umhverfismatið verður þannig, vegna annars þingmeirihluta en hér núna, hvert ætla menn þá að fara? Hvert ætla menn að fara til þess að fá annan áfanga til þess að verða við hörðum atvinnukröfum á Austurlandi og til þess að verða við hörðum arðsemiskröfum þeirra sem hafa lagt peninga í þetta, ef menn eru ekki tilbúnir til þess að fara í Kárahnjúkana? Gera menn sér grein fyrir því?

Það er Jökulsá á Fjöllum. (Gripið fram í: Hálendislína.) Það er hugsanlega hálendislína úr Skagafirði. Það er hugsanlegt. Það er líka hugsanlegt að fara í háhitann. En enginn af þessum virkjunarkostum hefur verið reiknaður út, hvorki út frá náttúrufarslegu sjónarmiði né arðsemissjónarmiði.

Gera menn sér grein fyrir því að undirbúning annars áfangans og virkjunaráformanna þar, undirbúningsaðgerðirnar og útreikninga, þarf að byrja eftir fimm ár? Hvert haldið þið að þetta fari? Við skulum gera okkur grein fyrir því að allt bendir til þess að við séum að opna leiðina í Dimmugljúfrin og spilla þar með þeim ómetanlega sjóði sem náttúran og þjóðin á þar.

Ég get ekki farið út í þá fáránlegu og grunnu umræðu sem menn hafa látið frá sér fara er þeir segja: ,,Gljúfrunum er ekkert spillt. Sjá menn það ekki að gljúfrið er þarna? Að vísu er vatnið farið. Er það ekki betra? Getum við ekki gengið þarna inn eftir?``

Þetta sýnir grundvallarmun á lífssýn manna, þ.e. þeirra sem segja svona og lífssýn manna eins og mín. Mín lífssýn er sú að það er búið að spilla þarna ósnortnu landi. Það er búið að byggja þarna vegg upp á 200 metra. Það er búið að fylla upp lónið, trektina þarna fyrir ofan, og þarna fara bæði náttúrlega mjög falleg gljúfur og meira gróðurland undir en gerir á Eyjabökkunum. Það er að vísu öðruvísi. Þarna fara undir mjög sérstakir jökulgarðar. Reyndar eru til annars staðar á landinu sambærilegir jökulgarðar. Fleira get ég talið.

Allt þetta er undir núna þegar við ætlum að ákveða að stíga þetta fyrsta skref um leið og við förum út Fljótsdalsvirkjun. Ég spyr: Af hverju má ekki taka þetta mál og meta það og staldra við? Af hverju má það ekki? Af hverju á að flumbrast út í þetta án þess að fara í mat á umhverfisáhrifum? Hvað sem menn vilja segja um mat á umhverfisáhrifum þá er þetta sjálfsögð kurteisi við hinar háværu kröfur í þjóðfélaginu um þetta efni.

Það er greinilegt að hv. þm. sem talaði hér áðan þekkir ekkert til þeirra grundvallaratriða í jarðfræði sem viðkoma þessum virkjunum og lónum. Ég ætla ekki að fara út í þau atriði en það var alveg augljóst að hv. þm. vissi lítið um þessi atriði.

Með því að fara út í Fljótsdalsvirkjun erum að fara út í þetta sem ég hef hér verið að lýsa. Landsvirkjun á að fá algjörlega frítt spil án þess að borga nokkuð fyrir landið. Það á ekki að greiða neitt fyrir náttúruna. Hún á að vera ókeypis í þessu máli. Ég spái því að þó svo við þurfum að láta þetta yfir okkur ganga þá sé þetta vonandi síðasta gjaldið sem við verðum að borga fyrir þá nytjastefnu þar sem ekkert á að greiða komandi kynslóðum fyrir fegurðina. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu á því að vitna í Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, kennara minn í háskólanum sem sagði að margir horfðu með gagnaugum á fossa landsins. En við skulum minnast þess að gæfa þessarar þjóðar felst ekki eingöngu í kílóvattstundum heldur í þeim fjölmörgu unaðsstundum sem þjóðin getur notið með því að virða óspillta náttúru þessa lands.