Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:25:26 (280)

1999-10-07 18:25:26# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljúft og skylt að verða við því að reyna að uppfræða hv. þm. aðeins um viðhorf okkar í þessum efnum. Ég bendi hv. þm. á þskj. sem hér liggur á borðum og heitir Tillaga um sjálfbæra orkustefnu. Þar er talsvert lýst inn í þá hugmyndafræði sem liggur á bak við og felur reyndar ekki í sér að t.d. jökulár eða dragár verði settar á bannlista heldur fyrst og fremst að allir virkjunarkostir séu teknir og skoðaðir og metnir út frá umhverfisáhrifum. Síðan reyni menn að ná einhvers staðar landi í þeim efnum, að koma sér niður á það hvar sé ásættanlegt að virkja, hverju eigi alveg að hlífa og virkja þá að sjálfsögðu á þann hátt sem minnsta umhverfisröskun hefur í för með sér. Það getur í sumum tilvikum þýtt jökulár, í öðrum tilvikum bergvatnsár, í sumum tilvikum miðlun, í öðrum tilvikum beina rennslisvirkjun o.s.frv.

En fyrst og síðast þýðir það þó að menn fari í það löngu tímabæra verk að endurmeta orkuforðann. Hvað er hann í raun og veru mikill? Það er ljóst að hann er minni en við höfum hingað til talið, það vitum við öll vegna þess að aldrei verður samstaða um að virkja allt það sem áður var talið að samstaða gæti orðið um að virkja. Þær gömlu 50 teravattstundir, sem menn reiknuðu stundum með að heildarorkan í vatnsafli og jarðvarma væri, verða kannski einhvers staðar nær 30 þegar upp er staðið, sem samkomulag geti orðið um og friður um í landinu að virkja.

Þeim mun mikilvægara er að við ráðstöfum þeirri orku skynsamlega þar sem hún er takmarkaðri en við höfum áður talið, það er alveg öruggt mál.

Varðandi hugmyndir um Kárahnjúkavirkjun, að gljúfrin verði ósnert --- að vísu tóm --- þá finnst mér það sambærileg hugmyndafræði og hjá snillingunum sem ætluðu að setja kranann á Dettifoss. Þeir voru nefnilega búnir að finna það út að hann væri fallegastur þegar það væri búið að stilla kranann þannig að 180 rúmmetrar væru í ánni.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni að þetta er bara einhver annar hugmyndaheimur, annar hugarheimur en mér er tamur. Fyrir mér eru Dimmugljúfur og vatnið í þeim að sjálfsögðu óaðskiljanlegur hluti auk þess sem ég held að gljúfrin yrðu nú fljótlega ærið mikið svipminni ef ekkert væri vatnið til að hreinsa þau og halda þeim eins og þau eru, þ.e. skriður og set mundi óðara byrja að fylla þau o.s.frv.

Herra forseti. Svarið er í raun og veru þetta, það er ekki stærðin á virkjunum sem skiptir þarna máli heldur umhverfisáhrifin sem eru þeim samfara. Það er ekki eðli vatnsins sem þarna er heldur umhverfisáhrifin ef hv. þm. er þá einhverju nær.