Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:31:52 (283)

1999-10-07 18:31:52# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Með því að leggjast gegn Kárahnjúkum er einfaldlega verið að gera ráð fyrir því að ekkert af stóru fljótunum verði virkjað á Austfjörðum. Ef Kárahnjúkarnir væru aftur á móti virkjaðir mundum við líka geta virkjað Jökulsá í Fljótsdal með því að taka hana neðar, fyrir neðan Eyjabakkana. Þá er hægt að ná a.m.k. helmingnum af þeirri orku sem er í Jökulsá í Fljótsdal og flytja hana yfir í göng sem liggja frá Hálslóni. Með hugmyndafræði græningja er verið að koma í veg fyrir að neitt af þessum miklu vatnsföllum verði nýtt.

Ég hafði séð fyrir mér að það væri einmitt hægt að ná einhverri sátt að þessu leytinu til. (SJS: Það á að setja málið í umhverfismat.) Þetta er ekki spurningin um það. Búið er að ákveða, m.a. af hv. þm. á sínum tíma, að þessi virkjun færi ekki í umhverfismat. Það þýðir ekkert að vera með slíka þráhyggju að vilja breyta því löngu seinna sem hv. þm. samþykkti, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Ég er að tala um þetta á þeim nótum að um sé að ræða eðlilega, við skulum segja röksemdafærslu, miðað við ríkjandi aðstæður, en ekki eitthvað sem menn vildu gjarnan að gerðist en vita samt að verður ekki. En mér finnst ekki vera neinn vilji til þess, og það er það sem ég hef áhyggjur af og þá ekki síst þegar við erum að hugsa um verndun á náttúruperlum eins og t.d. Eyjabökkum.