Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:43:14 (288)

1999-10-07 18:43:14# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir deilir skoðunum mínum hvað varðar byggðamál. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram þingplagg, sem á eftir að fara hér yfir eftir einhverja daga, þar sem við ítrekum hugmyndir okkar til bjargar byggðum í landinu. Ég vara við því og við vörum við því að menn einblíni á þennan kost, stóriðjuna. Við teljum hann óskynsamlegan og höfum ýmsa aðra kosti sem okkur langar að benda á.

Það er ekki rétt sem virkjanasinnar hafa gjarnan haldið fram um okkur sem viljum ekki virkja að við getum bara bent á ,,eitthvað annað``. Við höfum bent á ótal hluti. Við höfum bent á hátækniiðnað, við höfum bent á hitakærar örverur, sem eru virkilega þénanlegar í ýmsum iðnaði eins og lyfjaiðnaði. Og lyfjaiðnaðurinn er iðnaður sem veltir ég veit ekki hvað mörgum hundruðum milljarða króna árlega, en það er í öllu falli iðnaður sem gæti gefið afskaplega mikið af sér og stórvirkustu vinnuvélarnar sem þeir nota sem rannsaka hitakærar örverur eru teskeiðar.

Við höfum bent á að iðnaður standi í miklum blóma á Austurlandi. Hugvit og þekking er þar meiri jafnvel en víða annars staðar. Við horfum á handverkshús sem eru til fyrirmyndar og bera af handverkshúsum, ekki bara á Íslandi heldur þó víðar væri leitað. Það er fullt af hugmyndum sem verið er að vinna með á Austfjörðum.

Við viljum að flugvöllurinn á Egilsstöðum sé notaður sem alþjóðlegur flugvöllur, hann getur borið slíka umferð. Við viljum að ferðaiðnaðurinn á Austfjörðum verði allt árið. Ef það er einhvers staðar á landinu hægt að efla ferðaiðnað allt árið þá er það á Austfjörðum. Hvað með skíðasvæðið á Norðfirði? Það er fullt af hugmyndum sem við höfum og þær eru mjög gáfulegar og gætu bjargað okkur frá stóriðjunni. Ég bendi á þjóðir sem eiga ekki náttúruauðlindir eins og við, t.d. Danmörku, Ítalíu og Hollendinga. Þær hafa nú ekki beinlínis soltið. Þær eru að selja hugvit og gengur vel.