Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:48:24 (290)

1999-10-07 18:48:24# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:48]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt komið fram varðandi þessi mál og allt auðvitað verið orð í tíma töluð. Það sem hér hefur átt sér stað í dag gefur auðvitað tóninn fyrir þingið sem nú er hafið. Þetta er eitt af stærstu málum þingsins. Þetta er mikið átakamál, okkur er öllum mikið niðri fyrir og við eigum eftir að takast á um það áfram í ýmsu formi. Ég segi það fyrir hönd flm. þeirrar tillögu sem hér er til umræðu að við komum til með að berjast heiðarlega fyrir því að hún nái fram að ganga. Við munum leggja allt í sölurnar til að koma því til leiðar að Fljótsdalsvirkjun lúti lögum og fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Mannasetningar á borð við lög eru ekki óafturkræfar. Við erum að breyta lögum á hverjum degi í ljósi breyttra viðhorfa í samfélaginu, breyttra forsendna á grundvelli nýrra upplýsinga og aukinnar þekkingar mannsins, t.d. þekkingar á náttúru og samfélagi.

Nú liggur fyrir að ýmsir málsmetandi menn telja orkufrekan iðnað vera tímaskekkju. Meðal þeirra sem svo hafa talað undanfarið er aðalráðgjafi Alþjóðabankans í umhverfismálum. Hann heitir því fallega nafni Lovejoy og var hér á ferð fyrir ári eða ári og hálfu. Hann sagði Íslendingum að orkufrekur iðnaður á borð við málmbræðslu væri tímaskekkja. Við ættum að einbeita okkur að annars konar iðnaði sem gæti gefið jafnmikið í aðra hönd en stillti okkur ekki upp við vegg með að fórna náttúruauðæfum okkar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eru stofnanir sem stjórnvöld hér á Íslandi hafa litið upp til. Við höfum átt góð samskipti við þessar stofnanir og stjórnvöld okkar hafa tekið mark á þeim. Stofnanirnar tvær hafa nú komið sér upp reglum og eru alltaf að auka vægi skilyrða sem kveða á um að framkvæmdir fái ekki fyrirgreiðslu, framkvæmdir á borð við virkjanir og annað sem veldur umhverfisraski, nema að undangengnu lögformlegu mati á umhverfisáhrifum. Þetta eru leikreglur hins vestræna heims. Þetta eru leikreglur sem eðlilegt er að við beygjum okkur undir. Þetta er eina tækið sem við höfum til að mæla áhrif þeirra framkvæmda sem við erum að tala um hérna.

Vissulega eru möguleikar á annars konar virkjunum. Og við vitum að víða í heiminum eru tilraunir í gangi með rennslisvirkjanir. Við vitum að tækniþróuninni fleygir fram af miklu meira offorsi og hraða en svo að við getum fylgst með. Ég vona að rennslisvirkjunum eigi líka eftir að fleygja fram og að við eigum eftir að geta virkjað árnar okkar í farveginum eftir 10--20 ár, á annan hátt en við getum í dag. Ég vil meina að þó við þurfum að bíða í 10, 20 ár með framkvæmdir á svæðinu norðan Vatnajökuls þá sé það bara dropi af eilífðinni. Tíu ár af eilífðinni eru ekki neitt.

Ég vil segja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og sjálfri mér til huggunar að ég treysti því að sá tími eigi eftir að koma innan skamms að ákveðinn hópur borgarbúa á suðvesturhorninu flýi hið firrta borgarsamfélag og fari út á land, setjist þar að með fjölskyldur sínar. Það veltur á því að stjórnvöld taki myndarlega á málum menntunar og félagslegrar þjónustu í fjórðungunum.

Við eigum eftir að sjá þessa þróun innan skamms. Ég er sannfærð um að þróunin verður þessi ef við tökum réttar ákvarðanir í byggðamálum. Ég nefni sem dæmi lífrænan landbúnað, ef við tækjum það stóra skref að gera landbúnað okkar alfarið lífrænan. Þar með hefðum við möguleika á miklu dýrari mörkuðum í útlöndum. Við værum að gefa fólki sem hefur jafnvel ekki viljað sinna landbúnaði hingað til möguleika á að fara út í landbúnað undir nýjum formerkjum. Það gæti verið virkilega tekjuskapandi fyrir þjóðina.

Hagkvæmni stóriðjuframkvæmda er umdeild. Hagkvæmni þeirra virkjana og framkvæmda sem við stöndum frammi fyrir nú á Austurlandi hefur verið dregin í efa. Við höfum fengið hagfræðinga fram á sjónarsviðið sem hafa stutt það gildum rökum að þessar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir séu ekki hagkvæmar, hvorki til skamms né langs tíma. Við þurfum að fara ofan í öll þessi mál. Ég hlakka mjög til þegar lögin um mat á umhverfisáhrifum verða endurskoðuð. Þá langar mig að leggja til að ekki þurfi einasta að framkvæma umhverfismat á svona stórframkvæmdum heldur líka arðsemismat. Það er sjálfsögð skylda okkar að meta arðsemi svona stórra framkvæmda. Það liggur ekki fyrir um Fljótsdalsvirkjun, það liggur ekki fyrir um stóriðju á Austurlandi.

Varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram, um álverið sem er á teikniborðinu, vil ég segja að það er ekki rétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og Austfirðingum að hér sé einungis til umræðu 120 þús. tonna álver. Ég held á plaggi sem heitir Yfirlýsing um Noral-verkefnið. Þetta er yfirlýsing sem staðfest er af ríkisstjórn okkar. Þar kemur fram hvers konar áætlanir eru á borðinu. Þær áætlanir fengum við líka staðfestar á fundi í miðjum september á Héraði þar sem fulltrúi iðnrn. gerði mjög skilmerkilega grein fyrir þessum áætlunum.

Í þessu plaggi stendur með, leyfi forseta:

,,Árleg framleiðslugeta Noral-álversins í upphafi verður 120 þúsund tonn með möguleika á stækkun í áföngum upp í 480 þúsund tonn.``

Aðeins aftar í sama plaggi segir:

,,Ríkisstjórnin mun tryggja að vinna stjórnvalda við mat á umhverfisáhrifum álvers með allt að 480 þúsund tonna afkastagetu tefjist ekki vegna skorts á mannafla eða annarra verkefna. Ríkisstjórnin mun kanna möguleika á því að gera Noral-álfélaginu kleift að kaupa rafmagn frá fyrirhuguðaðri Kárahnjúkavirkjun á samkeppnishæfu orkuverði.``

Þetta stendur í plagginu sem verið er að vinna með núna. 480 þús. tonna álver er á teikniborðinu. Það er ekki verið að tala um neitt minna. Það er verið að tala um að reisa það í áföngum og að fyrsti áfangi álversins, sem á að verða 120 þús. tonn, útheimti 210 megavatta virkjun á Eyjabökkum, Fljótsdalsvirkjun og að auki 30--50 megavött sem kæmu þá úr Bjarnarflagi eða Kröflu. Þetta er áfangi númer eitt. Fljótsdalsvirkjun nægir ekki.

Áfangi númer tvö, samkvæmt upplýsingum frá iðnrn., er 240 þús. tonna áfangi. Hann útheimtir 500 megavatta virkjun við Kárahnjúka. Séu Eyjabakkar yfirlýstir náttúruminjasvæði þá er Kárahnjúkavirkjun að skemma friðland. 17% af Kringilsárrana færi undir Hálslón með Kárahnjúkavirkjun.

Þriðji áfangi álversins, samkvæmt upplýsingum iðnrn., yrði síðan 120 þúsund tonn. Samkvæmt þeim teikningum og plönum sem liggja fyrir í dag fæst raforkan til þess áfanga úr Arnardalslóni, þ.e. úr Brúarlóni og Arnardalslóni, úr virkjun sem þeir kalla Brúarvirkjun og er upp á 375 megavött. (Iðnrh.: Þetta er rangt.) Ég hef auðvitað heyrt að það sé búið að slá af Arnardalslón en í staðinn hefur verið talað um Kreppu og kannski eitthvað annað. Það liggur ekki annað fyrir en yfirlýsing um að það eigi að fara upp í 480 þús. tonna álver. Það kom fram á fundi austur á Héraði 14. sept. sl.

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni þátt almennings og stofnana samfélagsins í þessu umhverfismati. Við erum alltaf að tala um að meta þurfi áhrifin á umhverfið og stór hluti af umhverfismatinu sem við erum að óska eftir að fari fram felst í að almenningur, félagasamtök og stofnanir samfélagsins komi að þessu mati. Okkur finnst það sjálfsögð skylda stjórnvalda að bera mat af þessu tagi undir almenning og gefa almenningi kost á að tjá sig um það. Stjórnvöldum finnst það líka sjálfsagt. Stjórnvöld hafa fyrir hönd þjóðarinnar undirritað alþjóðlega sáttmála sem kveða á um slíkar skuldbindingar, sem skylda þessi sömu stjórnvöld til að bera framkvæmdir af þessu tagi undir almenning. Ég er hér að tala um Árósasamninginn sem samþykktur var og undirritaður fyrir Íslands hönd á ráðstefnu í Árósum í júní 1998. Þá ráðstefnu sóttu fulltrúar 55 ríkja Evrópu auk Bandaríkjanna og Kanada, þar af 35 umhverfisráðherrar ríkja í Evrópu og nýrra ríkja fyrrum Sovétríkjanna.

Ráðstefnuna sátu fyrir Íslands hönd Guðmundur Bjarnason, þáv. umhvrh., og ráðuneytisstjóri umhvrn., Magnús Jóhannesson. Á þessari ráðstefnu voru samþykktir þrír samningar, m.a. samningur sem fjallar um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þátttöku almennings í ákvarðanatöku í umhverfismálum.

Þetta er afskaplega mikilvægt plagg og kveður á um þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Markmiðið er að tryggja rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál og þátttöku í ákvörðunum þar að lútandi. Er samningnum ætlað að stuðla að því að réttur fólks til að búa í umhverfi sem er viðunandi fyrir heilsu þess og almenna velferð sé tryggður.

,,Samningur þessi er tímamótasamningur,`` --- segir í fréttatilkynningu frá umhvrn., með leyfi forseta, --- ,,þar sem ekki hafa áður verið gerðir alþjóðlegir samningar um þetta efni.``

Af þessum samningi stæra íslensk stjórnvöld sig. Ég bið þau að fara eftir honum í einu og öllu.

Virðulegi forseti. Í lokin langar mig að gera að umræðuefni framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Áætlun þessi var samþykkt í ríkisstjórninni að loknu umhverfisþingi sem haldið var 1996. Í henni er gerð grein fyrir þeim meginreglum sem gilda í almennum umhverfisrétti og voru samþykktar á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992. Ein þeirra er svokölluð varúðarregla, sem kveður á um ,,að ekki skuli að öðru jöfnu ráðist í framkvæmdir sem kunna að hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér, fyrr en sýnt sé að þær hafi ekki slík áhrif``.

Í öðru lagi langar mig að vitna í kaflann um Orku og iðnað í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar en þar segir með, leyfi forseta:

,,Þróun íslensks iðnaðar og orkubúskaps verði með þeim hætti að nýting orkulinda skerði ekki lífsskilyrði komandi kynslóða og að slík nýting og hvers kyns iðnaðarstarfsemi valdi ekki skaðlegri mengun eða óhóflegri röskun vistkerfa og náttúruminja.``

Hlutverk varúðarreglunnar er að tryggja að náttúran fái notið vafans þegar einhver vafi leikur á því að vísindin geti svarað til um áhrif viðkomandi framkvæmda á lífríkið. Þetta er afskaplega göfug regla og nær jafnt til lífsskilyrða manna og dýra. Mig langar að beina því til hæstv. ríkisstjórnar að hún fari bara með þessa reglu á hverjum degi til þess að auðlindir okkar, sem náttúra landsins býr yfir, fái notið vafans. Um það snýst þetta mál.

Ríkisstjórnin hefur yfir að ráða tæki sem ætlað er að meta það hvort röskun af því tagi sem áður var nefnd sé innan hóflegra marka eður ei. Þetta tæki nefnist mat á umhverfisáhrifum. Það hefur verið notað af vestrænum þjóðum um áratuga skeið til að leiða til lykta ágreiningsmál af því tagi sem við eigum nú í. Við höfum komið okkur saman um lög sem kveða á um hvernig slíkt mat eigi að fara fram. Þó að í þeim lögum sé ákvæði, sem stjórnvöld hafa dundað sér við að túlka þannig að undanskilja megi Fljótsdalsvirkjun matinu, þá vil ég segja að með því að túlka ákvæðið náttúrunni í hag, túlka allt þetta mál náttúrunni í hag, með því að framkvæma vilja meiri hluta þjóðarinnar og standa við orð sín í framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun, þá væri hæstv. ríkisstjórn að leggja þungt lóð á vogarskálarnar, sem ég sannarlega vona að hún eigi eftir að bera gæfu til að gera.

Mig langar raunar til að stinga upp á því að ríkisstjórnin gerist enn djarfari og göfugri í gjörðum sínum. Ef ráðherrar sem hafa lýst því yfir að þeir vilji sættir í þessari deilu meina eitthvað með því sem þeir segja þá ættu þeir að koma því til leiðar að framkvæmdum við virkjunina verði hreinlega slegið á frest á meðan við mörkum okkur stefnu til framtíðar. Stefnu sem gerir okkur kleift að stunda sjálfbæran orkubúskap, vega og meta virkjanakosti, finna lausnir í byggðamálum og síðast en ekki síst nota nýju náttúruverndarlögin náttúrunni og mannlífinu til hagsbóta.