Ráðning forstjóra í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:08:47 (296)

1999-10-11 15:08:47# 125. lþ. 6.1 fundur 43#B ráðning forstjóra í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í Morgunblaðinu hinn 1. apríl sl. var starf forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar auglýst laust til umsóknar. Kom fram í þeirri auglýsingu að utanrrh. skipar í embættið til fimm ára frá og með 15. maí sl. Um síðustu mánaðamót bárust hins vegar þær fréttir að hæstv. utanrrh. hefði tekið ákvörðun um að setja í þetta starf til eins árs en ráða engan þeirra umsækjenda sem brugðust við þeirri auglýsingu sem ég gat um áðan.

Hér er um mjög óvanalega gjörð að ræða svo vægt sé til orða tekið. Í því ljósi langar mig til þess að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessarar málafylgju og framgangsmáta, og spyrja:

1. Hvers vegna var þessi leið farin?

2. Hvað var það sem breyttist frá því að starfið var auglýst laust til umsóknar og til þess dags að ákvörðun var tekin um að ráða engan umsækjenda heldur setja í starfið?

3. Fór fram mat á hæfni umsækjenda?

4. Hefur hæstv. ráðherra látið kanna hvort þessi framgangsmáti sé í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en í tilgreindri auglýsingu var einmitt vísað til þeirrar löggjafar eðli málsins samkvæmt?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að réttur fólks sé skýr og glöggur í opinberri stjórnsýslu. Miklar breytingar hafa átt sér stað í skipulagi Leifsstöðvar á síðustu missirum og árum og mikilvægt að þar sé festa höfð í för. Eðlilega hafa því margir gagnrýnt eða a.m.k. lýst yfir undrun sinni á því hvernig fór um sjóferð þessa.